Föstudagur 13. september 2013

Vefþjóðviljinn 256. tbl. 17. árg.

Það hefur verið spaugilegt að fylgjast með frekjuköstum íslenskra Evrópusinna undanfarið. Þeir berja höfðinu við steininn á hverjum degi, af reiði yfir því að stuðningsflokkar inngöngu Íslands í Evrópusambandið fengu aðeins rúmlega 20% atkvæða í síðustu þingkosningum. Ný ríkisstjórn hefur stöðvað aðlögunarferlið að Evrópusambandinu og auðvitað verður umsóknin dregin til baka fljótlega, því allir mega sjá að fráleitt er að Ísland sé formlega „umsóknarríki“ lengur.

Meðal þess sem Evrópusinnar æpa í reiði sinni, er að ríkisstjórnin sé bundin af þingsályktun sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili, fyrir rúmlega fjórum árum. 

Það er auðvitað sjálfsagt að taka Evrópusinna á orðinu og samþykkja sérstaka ályktun um að inngöngubeiðnin í Evrópusambandið sé afturkölluð og Ísland sé ekki lengur umsóknarríki.

En hinu má ekki gleyma að utanríkisráðherra, sem hefur haldið stjórnmálamanna best á þessu máli undanfarið, hefur unnið fyrir opnum tjöldum. Alþingi veit um aðgerðir hans í málinu. Alþingi hefur öll tök á því að setja ráðherrann af, með vantrausti, eða gera sérstaka samþykkt þess efnis að aðgerðir ráðherrans, sem Alþingi veit auðvitað hverjar eru, séu ekki í samræmi við vilja þess.

Í því að Alþingi lætur gerðir ráðherrans óátaldar felast auðvitað skilaboð um þingviljann. Þingsályktun er almennt ekki annað en það, yfirlýsing um vilja Alþingis á þeirri stundu. Allir vita að í þessu máli er sá vilji sem var um stundarsakir sumarið 2009, gerbreyttur. Ráðherra er auðvitað ekki bundinn af þingvilja sem ekki er til. Dettur einhverjum í hug að allar þingsályktanir síðustu 100 árin séu „í gildi“? Hvaða „gildi“ er það? Þingsályktun segir ekki annað en hver vilji þingsins var á tiltekinni stundu, sem nú er löngu liðin. Þinginu, sem hafði viljann, hefur löngu verið slitið og nýtt verið kosið.

En auðvitað hlýtur Ísland að ljúka þessu rugli formlega innan skamms. Það er auðvitað fráleitt að Ísland sé ennþá „umsóknarríki“ í Evrópusambandið. Þess vegna er augljóst að inngöngubeiðnin verður afturkölluð formlega fljótlega. Það er hægt að gera það eftir samþykkt nýrrar þingsályktunar, en einnig gæti utanríkisráðherra tilkynnt Alþingi að hann hygðist afturkalla umsóknina að ákveðnum tíma liðnum, nema þingið kjósi að grípa inn í.