Vefþjóðviljinn 255. tbl. 17. árg.
Rætt er við Þorvarð Tjörva Ólafsson hagfræðing í Seðlabankanum í Morgunblaðinu í dag um þróun á greiðslubyrði lána almennings fyrir og eftir fall bankanna.
Sú umtalsverða hækkun greiðslubyrði vaxta sem varð í kjölfar kreppunnar virðist að verulegu leyti gengin til baka, nema fyrir tekjuhæstu heimilin.
Þessar upplýsingar hljóta að gjörbreyta forsendum í kosningaloforðum flokka um „skuldaleiðréttingar“ og kollvarpa öllu tali um „forsendubrest“.
Þorvarður Tjörvi bætir svo við:
Það er sömuleiðis áhugavert að sjá að þegar skilið er á milli íbúðalána og annarra lána, þá kemur í ljós að flest heimili virðast hafa þurft að verja minni hluta tekna sinna til að standa undir greiðslubyrði íbúðalána í fyrra en að meðaltali árin 2003-2007 og að verulegur hluti aukinnar greiðslubyrðar í kjölfar hrunsins stafaði af öðrum skuldum en íbúðalánum.
Aukin greiðslubyrði í kjölfar hrunsins var einkum vegna allt annarra lána en Framsóknarflokkurinn hefur lofað að „leiðrétta“! Greiðslubyrði þeirra lána sem Framsóknarflokkurinn hefur heitið að „leiðrétta“ hefur hins vegar lækkað frá því sem hún var fyrir „forsendubrest“.