Vefþjóðviljinn 221. tbl. 17. árg.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkið verði að hætta að eyða um efni fram. Ríkisstjórnin ætli að láta til sín taka og krefjast breytinga þar sem þeirra sé þörf.
Það er auðvitað rétt hjá Bjarna að ríkið verður að hætta að eyða um efni fram, og ágætt að fjármálaráðherra átti sig á því. Spurningin er hins vegar hvaða raunverulegi niðurskurður fylgir í kjölfarið. Þar þarf mjög hraustlegar aðgerðir, bæði til skamms og langs tíma. Langtímaaðgerðirnar eru ekki síður mikilvægar en hinar, því minnka verður verulega hið sjálfkrafa fjárstreymi úr ríkissjóði.
Ríkisstjórnin hefur tvo kosti. Árangursleysi eða átök. Nú reynir á ráðherra og þingmenn að baki þeim.
Hún verður að grípa til aðgerða, sem verða óvinsælar og Ríkisútvarpið mun fjalla um í næstum öllum þáttum nema veðurfréttum. Á síðustu árum hafa til dæmis verið búin til allskyns „réttindi“, sem fela í sér greiðslur úr ríkissjóði til hinna og þessara. Mjög mörg þeirra verður að fella niður og það mun kalla á reiði og gagnrýni og sjónvarpsstöðvarnar munu gera tilfinningaþrungin „innslög“ sem sýna munu aðra hlið málsins með dramatískum hætti. Þetta er hins vegar eitt af því sem verður að gera.
Stjórnmálamenn verða að hætta að tala máli útgjaldanna og þrýstihópanna og fara að tala máli skattgreiðenda. Það verður að verða alger hugarfarsbreyting þegar kemur að „hlutverki ríkisins“. Menn verða að hætta að gera góðverk sín á annarra kostnað.
Menn hafa ekki aðeins búið til ný og ný „réttindi“ á síðustu árum. Opinberum stofnunum hefur fjölgað verulega og einnig einkareknum stofnunum sem hafa fengið áskrift af opinberu fé. Þarna þarf að skera verulega niður. Fækka stofnunum og minnka framlög til einkarekinna stofnana umtalsvert. Þá verður að losa ríkið undan „samningum“ sem stjórnmálamenn hafa gert, langt fram úr eigin kjörtímabili, til að reyna að tryggja ríkisframlög til gæluverkefna jafnvel áratugi fram í tímann. Allt mun þetta vekja öskur í þeim sem vilja fá framlög frá skattgreiðendum. En stjórnmálamenn verða að standast þau öskur. Nú þarf stjórnmálamenn með sannfæringu, sem ekki hræðast átök.
Það er ágætt að stjórnmálamenn átti sig á því að ríkið má ekki eyða um efni fram. En jafnvel Steingrímur J. Sigfússon gat sagt það. Spurningin er hvort landið eigi stjórnmálamenn sem geta ráðist í þessar aðgerðir. Nú er kjörtímabilið nýhafið, ríkisstjórnin hefur rúman þingmeirihluta og flestir ráðherrarnir eru að eigin sögn afar hæfir og einmitt rétta fólkið í störfin. Núna ættu því að vera kjörskilyrði fyrir mjög verulegum niðurskurði.