Laugardagur 10. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 222. tbl. 17. árg.

Arnar Sigurðsson vakti athygli á því í grein í Morgunblaðinu í gær að Ríkisútvarpið ætlar að eyða fjögur þúsund milljónum króna í nýtt örbylgjudreifikerfi.

Nýverið skuldbatt sjónvarpsstöðin skattgreiðendur til 15 ára til uppsetningar á nýju örbylgjukerfi til dreifingar á tveimur háskerpurásum stofnunarinnar fyrir hvorki meira né minna en 4 milljarða! Hið „nýja“ dreifikerfi byggist þó á úreltri radíótækni „DVB-T2“ á sama tíma og sjónvarpsheimurinn er að færa sig alfarið yfir á internetið sem staðlaða flutningsleið, þó reyndar nokkuð á eftir viðskiptavinunum. Sú þróun er í dag hraðari en videoleigur í gjaldþrotameðferð og því má segja að skattgreiðendur séu að fjárfesta 4 milljarða í fortíð sem vitaskuld er algerlega galið.

Þegar lítið vantar upp á að öll heimili landsins séu komin í gott netsamband hlýtur þessi ráðstöfun að teljast undarleg.

„Sjónvarpstæki“ dagsins í dag eru m.a. spjaldtölvur og farsímar en í raun er framleiðslu eiginlegra sjónvarpstækja hætt þar sem öll tækniþróun hefur færst yfir í sífellt betri tölvuskjái með margfaldri upplausn og notkunarmöguleikum. Svokölluð línuleg útsending er vitaskuld hvergi innan þeirrar tækniþróunar sem á sér stað með opnum stöðlum netsins. Hugtakið „sjónvarp“ er löngu úrelt og verður öllum horfið í framtíðinni.

Það sem er einna sárast við þessa þróun er skortur á stefnumörkun stjórnvalda gagnvart landsbyggðinni. Bætt netsamband er augljóslega stærra byggðamál heldur en radíósamband fyrir örfáar sjónvarpsrásir. Því hefði verið nær að efla netsamband í sveitum landsins og þá helst með ljósleiðara sem íbúar gætu oft á tíðum tekið þátt í að leggja sjálfir eins og mörg dæmi eru um, t.d. að afskekktum sveitabæjum.

Nú þegar hafa 99,9% heimila aðgang að ágætu netsambandi og því ljóst að þróun á breiðbandsvæðingu hér á landi hefur miðað betur fram en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.

Sérstaða Ríkisútvarpsins sem „þjónustustofnun“ felst raunar í því að stjórn stofnunarinnar varðar ekkert um hvort einhverjir þiggja þjónustuna því öllum er gert skylt að borga hvort sem menn vilja eða geta þegið þjónustuna.