Fimmtudagur 8. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 220. tbl. 17. árg.

Orkuveita Reykjavíkur hefur ýmsar leiðir til að seilast í vasa borgaranna.
Orkuveita Reykjavíkur hefur ýmsar leiðir til að seilast í vasa borgaranna.

Viðskiptavinir Orkuveitu Reykjavíkur hafa greitt henni 3.700 milljónir aukalega á undanförnum tveimur árum vegna gjaldskrárhækkana. Það er liður í „planinu“ svonefnda sem bæta á stöðu félagsins. Á sama tíma hafa sparast 2.100 milljónir í rekstri félagsins sem er skref í rétta átt þótt það sé ekki á við það sem orkuveitan hefur haft að viðskiptavinum sínum með því að færa gjaldskrána á „hærra plan“. 

Því miður eiga borgarbúar ekki annan kost en að kaupa heitt vatn af OR og því geta þeir ekki snúið sér annað þegar fyrirtækið hækkar gjaldskrá sína svo skarpt.

Og gjaldskráin er ekki eina leið orkuveitunnar til að mjólka Reykvíkinga og aðra skattgreiðendur. Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður vakti á því athygli á Bylgjunni í gær að vinstri stjórnin skrifaði undir furðulegan samning um leigu á fyrstu hæð Perlunnar en borgarsjóður „keypti“ Perluna nýlega af orkuveitunni. Skemmtileg viðskiptaflétta hjá vinstri mönnum hjá ríki og borg. Hæðin á að kosta skattgreiðendur 80 milljónir króna á ári næstu 15 árin og þar á að efna til sýningar á gripum náttúruminjasafnsins.

Hvernig má það vera að stjórnmálamenn sem tönnluðust á því að hér hafi náttúrulega orðið hrun og réttlættu með því yfir 100 skatthækkanir hafi ætlað að bæta þessum útgjöldum á skattgreiðendur?