Föstudagur 2. ágúst 2013

Vefþjóðviljinn 214. tbl. 17. árg.

Hofsvallagatan hefur verið glæsileg breiðgata með nægu plássi fyrir alla. Vegfarendur hafa haft ótakmarkaða sýn til alla átta. Nú er borgarstjórnin að fylla götuna af rusli og hindrunum sem byrja mönnum sýn.
Hofsvallagatan hefur verið glæsileg breiðgata með nægu plássi fyrir alla. Vegfarendur hafa haft ótakmarkaða sýn til alla átta. Nú er borgarstjórnin að fylla götuna af rusli og hindrunum sem byrja mönnum sýn.

Hver ætlar að taka að sér að tala við þetta fólk sem nú ræður ríkjum í ráðhúsinu? Það þarf nefnilega að segja því frá því hvers vegna götur hafa verið lagðar um borgina.

Göturnar eru ætlaðar til þess að fólk komist milli staða, jafnvel borgarhluta, á eins skömmum tíma og umferðaröryggi leyfir hverju sinni. Göturnar eru vitaskuld fyrst og fremst ætlaðar einkabifreiðum, enda eru þær sá samgöngukostur sem yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa kýs sér. En einnig þurfa önnur tæki, svo sem vinnuvélar, flutningabifreiðar og fólksflutningabifreiðar að komast leiðar sinnar.

Þetta er megintilgangur gatnakerfisins. Ef hægt er að gera eitthvað skemmtilegt meðfram þessu, til að skapa stemmingu eða létta lund vegfarenda, þá er gaman að því. En slíkt má ekki verða á kostnað raunverulegs tilgangs gatnakerfisins, sem er sá að bifreiðar komist greiðlega milli staða.

Í suðvesturbæ Reykjavíkur er mikilvæg umferðaræð, Hofsvallagata. Bæði gatan og gangstéttar við hana eru breiðar og hafa þjónað akandi, hjólandi og gangandi með ágætum. Nú hafa borgaryfirvöld ákveðið að þrengja mjög að bifreiðum á henni, en setja blómaker á hana, fánastangir, mála tvær reiðhjólabrautir og allskyns skæra liti, því það er svo gaman. Þeir sem þurfa að komast leiðar sinnar um götuna verða að mæta afgangi. Þeir eru ekki að gera neitt spennandi og skapandi eins og hjóla í Vesturbæjarlaugina.