Vefþjóðviljinn 212. tbl. 17. árg.
Íslandsbanki endurgreiddi hluta þeirra vaxta sem hann heimti af húsnæðislánum viðskiptavina sinna á síðasta ári.
Þessi endurgreiðsla komst í fréttir á dögunum þegar í ljós kom að í einhverjum tilvikum hafa hinir lækkuðu vextir í för með sér að vaxtabætur viðskiptavinanna frá ríkissjóði lækka einnig. Þetta þótti einhverjum ósanngjarnt.
En vaxtabætur eru eins og nafnið bendir til bætur fyrir vexti sem fólk greiðir. Þær eru ekki aðeins háðar vaxtagreiðslunum heldur einnig tekjum manna og eignum.
Það er ekkert nýtt að menn tapi „rétti“ til vaxtabóta við það að einhver þessara þátta breytist. Þegar laun manna hækka lækka vaxtabæturnar. Þegar eignir þeirra fara yfir ákveðin mörk falla vaxtabæturnar niður. Og já þegar vextirnir lækka fara vaxtabæturnar sömu leið.
Að kveina undan því að Íslandsbanki lækki vextina er því nánast jafn fráleitt og að koma bálreiður til vinnuveitanda yfir launahækkun síðasta árs því hún hafi haft af mönnum vaxtabætur.