Vefþjóðviljinn 189. tbl. 17. árg.
Í gær var hér fjallað aðeins um umfangsmikinn stuðning ríkisins, skattgreiðenda, við þá sem taka lán til að „kaupa sér húsnæði“. Í síðustu kosningum var sá hópur mjög til umræðu, enda er hann bæði fjölmennur og á sér háværa talsmenn, og gengu ýmsir flokkar langt í að lofa skuldugum íbúðakaupum liðveislu ríkisins.
En hversu langt gengu þeir? Hefur einhvers staðar verið gerð vönduð úttekt á því, hverju var í raun lofað og hvað það er sem er bara útlegging annarra á loforðunum?
Stóru flokkarnir,þessir gamaldags og miðstýrðu, þeir héldu fjölmenn flokksþing þar sem félagsmenn gátu komið saman, mótað stefnuna og valið forystu. Björt framtíð og „Píratar“, þessir opnu og lýðræðislegu nútímaflokkar, gerðu það að vísu ekki, en þeir eru samt nútímalegir því hjá Bjartri framtíð syngja menn þegar sjónvarpið kemur í heimsókn og „Píratarnir“ eru mikið á netinu og funda stíft á spjallrásum.
Hverju lofuðu stóru flokkarnir á flokksþingum sínum, svo sem í „skuldamálum heimilanna“? Það var ekki búið að mynda ríkisstjórnina þegar byrjað var að væna væntanlega stjórnarflokka um svik, svo væntanlega hafa fjölmiðlar og álitsgjafar verið búnir að fara yfir hverju hafi verið lofað. En hvers vegna er ekki gerð úttekt á því?
Allir vita að þegar nær dregur kosningum reyna fjölmiðlamenn að fá stjórnmálamenn til að gaspra. Sótt er að einstökum frambjóðendum með spurningaflóði, og stundum tekst þannig að fá út úr þeim svör sem enga stoð eiga í samþykktum flokka þeirra. Þegar búið er að því, láta fjölmiðlamenn og þrýstihópar eins og gefin hafi verið kosningaloforð, því allir vita að enginn flokkur vill láta fréttirnar næstu daga snúist um leiðréttingar á gaspri einstakra frambjóðenda. Þannig er hægt að koma af stað alls kyns misskilningi og festa hann í sessi.
En hverju lofuðu flokkarnir vitandi vits fyrir kosningar? Til dæmis Framsóknarflokkurinn, sem sakaður var um ótrúleg yfirboð, hverju lofaði hann í raun og veru? Það verður að greina á milli þess sem andstæðingar hans lögðu út af tillögum hans, til þess að sýna flokkinn í sem ábyrgðarlausustu ljósi, og svo raunverulegum flokkssamþykktum hans. Og kom ekki skýrt fram hjá Framsóknarflokknum að tillögurnar væru miðaðar við að „svigrúm“ myndi skapast með samningum við erlenda kröfuhafa bankanna?
Varla eru menn búnir að gleyma öllu talinu um hrægamma? Það átti að ná út úr þeim peningum svo borga mætti inn á skuldir „heimilanna“.
Er ekki rétt að gera úttekt á því hverju var í raun lofað og hvað var í raun forsenda þess að unnt yrði að efna eitthvað af loforðunum, áður en menn missa alla stjórn á sér í ákafanum við að saka stjórnarflokkana um svik, eða þá um gríðarlegt ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum?