Helgarsprokið 7. júlí 2013

Vefþjóðviljinn 188. tbl. 17. árg.

Það er ógurlegur kostnaðurinn sem skattgreiðendur þurfa að bera vegna afskipta ríkisins af húsnæðismálum.
Það er ógurlegur kostnaðurinn sem skattgreiðendur þurfa að bera vegna afskipta ríkisins af húsnæðismálum.

Það er sagt að með verðtryggingu húsnæðislána beri skuldari alla áhættu en lánveitandinn enga. 

Hafiði heyrt um lánveitandann Íbúðalánasjóð sem aldrei hefur lánað nema verðtryggt?

Það er líka sagt að ekkert hafi verið gert fyrir skuldum vafin heimilin undanfarin ár. 110% leiðin var vanþökkuð, alls kyns persónulegar skuldaleiðréttingar, almenn frestun nauðungarsölu, skuldaaðlögunin, að ógleymdri sérstakri vaxtaniðurgreiðslu ríkisins og vaxtabótum frá skattgreiðendum sem stundum mætti ætla að væru í raun ekki til svo sjálfsagt þykir skuldurum að fá nokkur hundruð þúsund króna millifærsluna frá skattgreiðendum í ágúst ár hvert. Þær þakkar enginn. Enginn. 

Vaxtabæturnar eru 12 þúsund milljónir króna á ári. 12 milljarðar. Hver fjögurra manna fjölskylda greiðir 145 þúsund krónur í skatta til að fjármagna þær.

Skuldarar kætast vissulega þegar þær berast inn á bankareikninga ár hvert. En líkt og um öll önnur niðurgreiðslukerfi ríkisins er ekki allt sem sýnist.

Hver nýtur vaxtabótanna í raun?

Banki ætlar að lána húseiganda 20 milljónir króna gegn 3% vöxtum. En þá fær bankinn veður af því að ríkið ætli að styðja húseigandann um 400 þúsund krónur á ári með vaxtabótum til að mæta vaxtakostnaði. Liggur ekki í augum uppi að skuldari með slíkan stuðning ríkisins ræður við hærri vexti en sá sem nýtur þeirra ekki? Bankinn hækkar vextina auðvitað í 4% og hirðir þannig helming vaxtabótanna. Eða í 5% og hirðir þær allar.

Á næstunni verður vafalaust skipuð nefnd á vegum húsnæðismálaráðherra sem á að „móta skipan húsnæðismála til framtíðar.“ En er ekki komið nóg af afskiptum ríkisins af þessum málaflokki? Og þá er ekki aðeins átt við afskipti ríkisins undir stjórn Framsóknarflokksins.

Eitt af því sem stjórnlyndir pólitíkskussar  hafa vælt og jarmað yfir um árabil er að „leigumarkaðurinn sé í molum.“ En hvernig má annað vera á meðan sömu stjórnmálamenn heimta að öllum sé gert mögulegt að kaupa sér íbúð? Hver vill leigja á meðan bótum er dælt í íbúðakaupendur og þess er krafist að enginn megi tapa á íbúðarkaupum, því  það sé „forsendubrestur“?