Vefþjóðviljinn 190. tbl. 17. árg.
Nú er mikið uppnám í hjá Samtökum ferðaþjónustunnar og stjórnvöldum. Landeigendur eru byrjaðir að heimta gjöld fyrir þeim kostnaði sem þeir verða fyrir af völdum ferðamanna á landareignum sínum. Helst myndi ferðaþjónustan ekki vilja greiða neitt, ekki frekar en skatta eins og aðrir, því ferðaþjónustan vill ekki að virðisaukaskattur verði lækkaður heldur bara virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna.
Í Viðskiptablaðinu lýsir forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og varaþingmaður vinstri grænna þessari nýjustu vá svo:
Það versta væri ef við horfðum upp á að hver landeigandinn hæfi gjaldtöku og tækju ákvörðun, hver með sínu nefi, um fjárhæð og fyrirkomulag.
Já þetta væri alveg skelfilegt. Hugsum okkur bara ef þessi gjaldtaka væri ekki miðstýrð, eitt ríkisgjald sem innheimt væri í Leifsstöð ríkisins eða í einkaleyfisrútunni á leið í bæinn og helst fylgdi ríkiskort með mynd eða armband. Án slíkrar samræmdrar ríkisgjaldtöku myndu landeigendur jafnvel þróa alls kyns nýjar lausnir – jafnvel hver með sínu nefi – í þessum efnum og ferðamenn og ferðaþjónustan þyrfti að gera upp á milli mismunandi kosta. Þá yrði jafnvel til vísir að samkeppni um ferðamennina og alls kyns ný þjónusta við þá myndi spretta upp.
Þetta væri „það versta“.