Vefþjóðviljinn 175. tbl. 17. árg.
Hvernig ætli ljósvakamiðlarnir verði eftir fjögur ár, þegar þeir eru svona núna? Ný ríkisstjórn hefur aðeins verið mánuð við völd en það virðist vera meira en sumir þola. Alveg frá ríkisstjórnarskiptum hafa fréttamenn verið í lúsaleit gegn nýju stjórninni en taka gagnrýnislaust því sem andstæðingar hennar segja.
Auðvitað er æskilegt að fjölmiðlar veiti stjórnvöldum aðhald. En að minnsta kosti fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur skipt um gír frá stjórnarskiptum. Fyrstu vikurnar virtist henni sérstaklega uppsigað við nýjan forsætisráðherra og lagði mikið á sig í þeim efnum. Var til dæmis merkilegt að fylgjast með sífelldri leit fréttastofunnar að „óháðum fræðimönnum“ til að efast um það sem ráðherrann hefði að segja, og var það töluverð nýbreytni frá fjögurra ára farsælum forsætisráðherraferli Jóhönnu Sigurðardóttur, en í Efstaleiti þótti sjaldan ástæða til að grandskoða orð hennar nánar.
Núna ráða fréttamenn sér varla af reiði vegna tillagna um að milda aðeins þá ótrúlegu skattahækkun sem vinstristjórnin lagði sérstaklega á sjávarútveginn í landinu. Eitt mest sláandi dæmi um ákefð fréttamanna í því máli birtist á föstudagskvöldið þegar báðar sjónvarpsfréttastofurnar slógu því upp sem fyrstu frétt að það teldust hótanir, skoðanakúgun og aðför að lýðræðinu að svo hefði tekist til að vinnuveitanda manns, sem nú safnar netundirskriftum gegn lagafrumvarpi, hefði borist afrit af fundarboði til mannsins.
Báðar sjónvarpsfréttastofur sendu þetta gagnrýnislaust út. Hvorugri datt í hug að spyrja kenningasmiðina hvernig þessi furðulega kenning stæðist. Nöfn þessara vösku manna höfðu margoft verið birt opinberlega, svo varla var það vandamálið. Þeir sögðu sjálfir frá því að ef þingið færi ekki að kröfum þeirra þá myndu þeir afhenda Ólafi Ragnari Grímssyni netundirskriftirnar, svo varla var vandamálið það að vinnuveitandinn mætti ekki vita að þeir myndu hitta ráðamenn að máli. Kenningasmiðirnir voru ekki spurðir um neitt af þessu. Ætli talsmenn gagnstæðra sjónarmiða hefðu fengið svipaða meðferð? Hvernig var það aftur þegar efnt var til mótmælafundar gegn þeim lagabreytingum sem vinstristjórnin hugðist knýja í gegn í sjávarútvegsmálum? Var það ekki þannig að fréttastofa Ríkisútvarpsins frétti ekki af því fyrr en aðrir menn efndu til mótmæla gegn mótmælunum. Þeir urðu fyrsta frétt.