Helgarsprokið 23. júní 2013

Vefþjóðviljinn 174. tbl. 17. árg.

Beðið eftir grænu. Oft reynist grænt þó bara vera rautt. Nú er búið að leiða í lög á Íslendingar eigi frá og með árinu 2015 að nota dýrara og rýrara eldsneyti en áður.
Beðið eftir grænu. Oft reynist grænt þó bara vera rautt. Nú er búið að leiða í lög á Íslendingar eigi frá og með árinu 2015 að nota dýrara og rýrara eldsneyti en áður.

Í janúar síðastliðnum minntist Vefþjóðviljinn þess að í tuttugu ár hefðu Bandaríkjamenn verið neyddir til að brenna bensíni með ákveðnu hlutfalli af etanóli á bílum sínum. Það hefur verið gert undir merkjum innlendrar, endurnýjanlegrar og grænnar orku. Bandarískir skattgreiðendur styrkja maísræktendur til etanólframleiðslu og reglur kveða á um íblöndun þess í bensín. Um 40% af maísuppskeru Bandaríkjanna er nýtt í etanólframleiðslu.

Þetta er raunar svo fráleit aðferð til þess að framleiða eldsneyti að þegar allt er talið þarf á tíðum meiri orku til að búa þetta eldsneyti til en fæst úr því á endanum. Það þarf ekki aðeins orku til plægja, sá og uppskera heldur er framleiðsla á áburði orkufrek og svo eimingin sjálf. Orka er fengin með brennslu á olíu, kolum og gasi.

Etanól hefur enga sérstaka kosti sem eldsneyti á bifreiðar en ýmsa ókosti eins og að blandast fullkomlega við vatn sem gerir geymslu þess og flutning vandkvæðum háðan. Etanól hefur lægra orkuinnihald á rúmmál en hefðbundið jarðefnaeldsneyti sem þýðir að ökumenn þurfa að fara fleiri ferðir en ella á bensínstöðvar.

Umhverfisverndarsinnar sem láta jafnan glepjast af öllu sem sagt er „endurnýjanlegt“ eru hins vegar farnir að draga í land með stuðning sinn við etanólið og nú sjást fyrstu merki þess að yfirvöld séu einnig efins um þessa grænu starfsemi.

Hinn 31. maís síðastliðinn skrifaði Rick Scott ríkisstjóri í Flórída undir lög þess efnis að ekki verði lengur gerð krafa um meginhluti eldsneytis í ríkinu innihaldi 10% etanól. Þetta er lítið skref í rétta átt og ekki víst að það hafi mikið að segja þegar yfirvöld í Washington krefjast þess sem fyrr að bensínið sé blandað etanóli og hafa í hyggju að ráðum Umhverfisverndarstofnunar (EPA) að hækka lögboðið hlutfall úr 10 í 15%.

Og já vel á minnst. Hreinu vinstristjórninni tókst í andarslitrunum í vor að setja lög um að hvað sem það kosti og hver sem áhrifin á umhverfið séu skuli eldsneyti í samgöngum á landi á Íslandi frá og með 1. janúar 2015 innihalda 3,5% „endurnýjanlegt“ eldsneyti og 5% ári síðar.