Laugardagur 22. júní 2013

Vefþjóðviljinn 173. tbl. 17. árg.

Forsendubrestur hefur verið töfraorð íslenskrar stjórnmálaumræðu undanfarin ár. Með honum er vísað til verðbólgu á árunum 2007 til 2009 sem leiddi til hækkunar á verðtryggðum lánum.

Verðtryggt lán, sem fólk hefur tekið að eigin frumkvæði sér til handa og skrifað undir í votta viðurvist, er samningur um að þegar peningar falla í verði fái lánveitandinn það bætt með verðbótum.

Verðtryggðir lánasamningar eru því sérstakir og þar til gerðir samningar um viðbrögð við verðbólgu. Ef lánveitendum stæði á sama um verðbólguna myndu þeir ekki krefjast verðtyggingar. Verðtryggingin er trygging gegn forsendubresti í verðgildi peninganna.

Það hljómar því fremur undarlega að nota orðið forsendubrest um það þegar þar til gerðir samningar um verðbætur ganga eftir.

Og ekki batnar það þegar þess er krafist að almennir skattgreiðendur, sem enga aðild eiga að þessum lánasamningum, séu dregnir að borðinu.