Þriðjudagur 25. júní 2013

Vefþjóðviljinn 176. tbl. 17. árg.

Á dögunum lýstu fasteignasalar því að loforð Framsóknarflokksins um „skuldaleiðréttingar“ hefðu lamað fasteignamarkaðinn því fólk þyrði ekki að selja húsnæði og greiða upp lán sín af ótta við að missa af „leiðréttingunni.“ Aðrir hafa ekki heldur þorað að greiða inn á eða breyta verðtryggðu lánunum sínum í óverðtryggð eða verðtryggð á betri kjörum af sömu ástæðu. 

Þá sagði Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að það væri ástæðulaus ótti því „leiðréttingin“ kæmi til þeirra sem hefðu verið með verðtryggð lán þegar „forsendubresturinn“ átti sér stað, það er á árunum 2007  – 2010.

Í gær lýstu Seðlabankinn og Samtök atvinnulífsins yfir áhyggjum af almennri „skuldaleiðréttingu“ fyrir efnahagslífið því það kann að hafa ýmsar misóvæntar afleiðingar að færa nokkur hundruð milljarða króna á einu brettu til fólks sem er ekki í greiðsluvanda heldur hefur þvert á móti hagnast á íbúðakaupum sínum. Þetta fólk mun fá peninga senda heim ef marka má orð Frosta á Bylgjunni síðdegis í gær, nema kortaskuldir og símareikningar þess verði lækkaðir.

Og hvaða peningar skyldu það nú eiga að vera sem greiddir verða inn á lán eða sendir heim í umslagi? Jú það eru krónur sem eru taldar svo ónýtar  nú umstundir að ekki er óhætt að fólk skipti þeim í aðra gjaldmiðla. Þetta eru krónur sem íslenska ríkið hefur gefið út en getur ekki staðið við að séu gjaldgeng mynt. Með öðrum orðum ætlar íslenska ríkið að nota skuldbindingar sem það getur ekki staðið við til að greiða skuldir fólks úti í bæ.