Vefþjóðviljinn 172. tbl. 17. árg.
Það er fróðlegt að hugsa um hvað það er sem fréttamenn telja eiga erindi við hlustendur og hvað þeir vilja síður að hlustendur heyri.
Það er til dæmis skemmtilegt að fylgjast með því hvernig fréttamenn Ríkisútvarpsins, sem varla vissu af því að verið væri að safna undirskriftum gegn lögum um hinn óafturkræfa skuldaklafa á kynslóðir Íslendinga , „Icesave“, hafi nú frá upphafi notað öll hugsanleg tækifæri til að minna á að verið sé að safna undirskriftum gegn lögum, sem eiga að lækka nýjan viðbótarskatt á sjávarútveginn í landinu í eitt ár.
Frá myndun ríkisstjórnarinnar hafa fréttamenn og stjórnarandstæðingar talað um að það stjórnin sé að svíkja loforð sem hún hafi gefið skuldurum í landinu. Þó er það svo, að jafnvel framsóknarmenn tóku fram í loforðum sínum að loforðin yrðu efnd með því „svigrúmi“ sem kæmi út úr samningum við erlenda kröfuhafa bankanna. Þannig að ekki getur verið um nein „svik“ að ræða, fyrr en í fyrsta lagi ef „svigrúmið“ myndast en verður ekkert notað til lækkunar skuldanna. Fram að því hefur ekkert verið svikið.
En sömu fréttamenn og stjórnarandstæðingar minnast ekki orði á að báðir stjórnarflokkarnir lofuðu landsmönnum því fyrir kosningar að veiðigjaldið, sem er sérstakur viðbótarskattur á sjávarútvegsfyrirtæki, yrði lækkað. Enginn fréttamaður nefnir þetta. Enginn fréttamaður spyr hvort ríkisstjórnin hyggist svíkja þetta loforð. Enginn álitsgjafi segir með alvöruþunga að það sé spurning um heilindi að þetta kosningaloforð verði efnt.
Ætli persónulegar skoðanir fréttamanna og álitsgjafa skipti hér máli?