Helgarsprokið 16. júní 2013

Vefþjóðviljinn 167. tbl. 17. árg.

Ríkisafskipti sem réttlætt eru í ljósi óvenjulegra aðstæðna á krísutímum verða varanleg og fordæmi sem upp frá því er notað hversdags. Þannig þenst ríkið út og nærist jafnvel á eigin axarsköftum. Robert Higgs gerði góða grein fyrir þessu í bók sinni fyrir aldarfjórðungi.
Ríkisafskipti sem réttlætt eru í ljósi óvenjulegra aðstæðna á krísutímum verða varanleg og fordæmi sem upp frá því er notað hversdags. Þannig þenst ríkið út og nærist jafnvel á eigin axarsköftum. Robert Higgs gerði góða grein fyrir þessu í bók sinni fyrir aldarfjórðungi.

Mikla hneykslun vakti víða á Vesturlöndum þegar fréttist að bandarískar öryggisstofnanir gætu fengið aðgang að gögnum hjá bandarískum vefsíðum, í leit sinni að þeim sem eru taldir ógna öryggi Bandaríkjanna. Margir náðu ekki upp í nef sér af undrun og reiði. Bandaríska leyniþjónustumanninum sem sagði frá þessu er lýst með hástemmdum oðrum sem mikilli hetju.

En við hverju bjuggust menn?

Nú er Vefþjóðviljinn lítið hrifinn af því að ríkið sé með nefið í hvers manns koppi. Það breytir ekki því að hann skilur ekki hvers vegna menn eru svona óskaplega hissa á því að bandarískar öryggisstofnanir geti fengið þennan aðgang.

Í Bandaríkjunum er mjög mikill áhugi á öryggi landsins og íbúa þess. Og því miður er ástæða fyrir þeim áhuga. Gríðarlega margir vilja ráðast gegn Bandaríkjamönnum. Það er einfaldlega staðreynd, en menn geta svo rifist endalaust um hvort Bandaríkjamenn eigi sjálfir sök á einhverju af því hatri sem að þeim er beint. 

Það þarf engum að koma á óvart þó bandarísk yfirvöld gangi langt í að reyna að vernda öryggi landsins. Reyndar er það svo að margir þeirra sem gagnrýna þau jafnan harðast fyrir slíkt, gagnrýndu þau einnig harðlega haustið 2001 fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir árásirnar ellefta september, en það er önnur saga.

Í öðrum löndum Vesturlanda er ekki lögð sama áhersla á öryggi landsins, enda ekki alveg sama ástæða til ennþá. En eru menn vissir um að ekki séu einhver önnur málefni þar sem fólk leggur mikla áherslu á að náð sé árangri og glæpamenn komist ekki upp með ódæðisverk sín? Og þá sé friðhelgi einkalífs ekki alltaf hátt skrifuð.

Hvernig hefur það verið eftir bankahrunið 2008? Hefur ekki verið lögð talsverð áhersla á að sérstakur saksóknari gangi sem harðast fram? Hafa menn miklar áhyggjur þó í ljós komi að samtöl manna hafi verið hleruð árum saman? Ráðherrar fögnuðu gæsluvarðhaldsúrskurðum opinberlega.  

Víða á Vesturlöndum hefur baráttan gegn kynferðisbrotum svipaðan sess og baráttan fyrir öryggi ríkisins hefur í Bandaríkjunum. Og alveg eins og með áhyggjur Bandaríkjamenna af eigin öryggi, þá er því miður gild ástæða fyrir Vesturlandabúa að berjast hart gegn kynferðisbrotum. Ætli allir þeir, sem eru mjög hneykslaðir á því að bandarískar öryggisstofnanir geti fengið gögn frá stærstu veffyrirtækjum þar í landi, yrðu ánægðir ef þeirra lögregla fengi ekki þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar til að berjast gegn barnaklámi?

Oft heyrist kvartað yfir því að einhver hafi ekki verið settur í gæsluvarðhald. En gæsluvarðhald er ekki refsing. Það getur verið heimilt að setja mann í gæsluvarðhald ef það er nauðsynlegt vegna málsins sem verið er að rannsaka. En menn verða að gæta þess að maðurinn í gæsluvarðhaldinu hefur ekki verið sakfelldur. Það er vitaskuld mjög alvarlegt ef ríkið sviptir ódæmdan mann frelsi. Slíkt má einungis gerast í undantekningartilvikum. Engu að síður er oft kvartað yfir því að þetta sé ekki gert. Ætli það geti verið að þar beri umhyggjan fyrir hinu góða máli, að uppræta glæpi og koma lögum yfir glæpamanninn, grundvallaratriðin ofurliði? 

Menn ættu ekki að halda að það sé bara í Bandaríkjunum þar sem yfirvöld ganga ákaft fram í baráttu sem yfirgnæfandi meirihluti borgaranna styður. Í baráttu sem er af hinu góða og hreinlega nauðsynleg.  Og er þá ekki átt við það þegar Hafnarfjarðarbær borgar unglingum fyrir að fara út í sjoppu og kaupa sígarettur, til að veiða kaupmenn sem ekki fara eftir tóbakslögunum.

Og ef menn eru ósáttir við hvaða aðgang bandarískar vefsíður veita bandarískum yfirvöldum, þá ættu þeir að sjálfsögðu að hætta að nota þær síður. Málið þarf ekki að vera flóknara en það. Það er ótrúlegt hvað lífið verður skemmtilegra ef menn slökkva á tölvunni og fara að gera eitthvað af viti. 

Eins og að hlusta á einhvern vin sinn lesa Vefþjóðviljann fyrir sig.