Laugardagur 15. júní 2013

Vefþjóðviljinn 166. tbl. 17. árg.

Hvað varð um baráttuna gegn ríkisábyrgð á einkaskuldum? Sigurður Hannesson ráðgjafi forsætisráðherra sér um að útfæra ríkisábyrgðir, eignaupptöku og aðra fylgifiska skuldaleiðréttingarinnar í Excel.
Hvað varð um baráttuna gegn ríkisábyrgð á einkaskuldum? Sigurður Hannesson ráðgjafi forsætisráðherra sér um að útfæra ríkisábyrgðir, eignaupptöku og aðra fylgifiska skuldaleiðréttingarinnar í Excel.

Það er raunalegt að hlusta á Sigurð Hannesson stærðfræðing, einn þeirra sem tóku virkan þátt í baráttunni gegn lögum um ríkisábyrgð á Icesave-skuldum einkaaðila, mæla með því í viðtali við í Klinkinu að settur verði upp sjóður með nokkur hundruð milljarða króna ríkisábyrgð sem hefði það hlutverk að greiða… einkaskuldir.

Fréttamaður: Í stjórnarsáttmálanum er talað um það að hugsanlega verði notaður leiðréttingarsjóður til að fella niður skuldir þessara einstaklinga sem lentu í forsendubresti vegna verðtryggingar og það er þá ríkisfé sem færi í þennan sjóð á einhverjum tímapunkti.
Sigurður Hannesson: Ja ábyrgð allavega.
Fréttamaður: Já allavega ríkisábyrgð.
Sigurður: Líklega já.

Sigurður er yfirmaður í einum af einkabönkum landsins. Samkvæmt viðtalinu hefur hann að undanförnu sett upp óteljandi líkön í Excel fyrir forsætisráðherra landsins um hvernig megi féfletta eigendur tveggja annarra einkabanka og „nýta svigrúmið“ sem af því hlýst til að gefa ákveðnu fólki peninga. Þykir engum það undarleg staða að starfsmaður eins banka leggi á ráðin um það með forsætisráðherra landsins hvernig megi snúa eigendur annarra banka niður?

Þessir menn tala um eignarréttinn, eina meginstoð vestrænna lýðræðisríkja, eins og hann sé eitthvað sem þeir geti útfært í Excel.

Þorbjörn Þórðarson fréttamaður reyndi að benda Sigurði á að einungis hluti heimila er með verðtryggð lán. Hví skyldu allir skattgreiðendur taka þátt í því með beinum útgjöldum eða ríkisábyrgð á skuldaleiðréttingarsjóði að rétta hlut minnihluta heimila hver stór hluti á eignir umfram skuldir? Sigurður svaraði því með þessu:

Í fyrsta lagi eins og ég nefndi áðan er auðvitað hugmyndin að  þetta verði almenn aðgerð sem þýði það að hún mun ná til flestra heimila.

Maðurinn sem kynntur er sem helsti ráðgjafi forsætisráðherra virðist ekki hafa kynnt sér hve mörg heimili eru með verðtryggð húsnæðislán. Rúmur fjórðungur fjölskyldna býr ekki í eigin húsnæði og annar fjórðungur skuldar ekkert í húsnæði sínu. Það er því alveg ljóst að „leiðrétting“ á verðtryggðum skuldum heimila nær ekki til „flestra“ heimila.