Laugardagur 1. júní 2013

Vefþjóðviljinn 152. tbl. 17. árg.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins ýtti mjög undir ,,búsáhaldabyltinguna” á sínum tíma og sýndi mótmælendur hvað eftir annað í jákvæðu ljósi en lögregluna í neikvæðu. Lið fór um bæinn og reyndi meðal annars að ráðast inn í aðallögreglustöðina með valdi. Þegar lögreglan varðist varð það sjálfkrafa og samstundis aðalmálið hjá Ríkisútvarpinu hvort lögreglan hefði gengið of langt.  Þá var fjöldi mótmælenda á Austurvelli ýktur upp á við og vel auglýst hvenær mótmæli færu fram. Þetta lið var aldrei kallað sínu rétta nafni af Ríkisútvarpinu.

 Á undanförnum dögum hefur fréttastofa RÚV nokkrum sinnum fjallað um óeirðir í öðrum löndum og þá gjarnan kallað um skríl eins og eðlilegt er. Í frétt um óeirðir í Svíþjóð og Frakklandi eru óeirðaseggir og mótmælendur kallaðir skríll sem lögreglan þurfti að fjarlægja og sérstaklega vísað til að þeir hafi unnið eignaspjöll og fleygt grjóti í lögregluna.  

Í búsáhaldabyltingunni var grjóti, eggjum og mörgu fleiru kallað í lögregluna. Rúður voru brotnar og margvísleg önnur eignaspjöll unnin. Borinn var eldur að Alþingishúsinu og litlu munaði að honum tækist að læsa sig í eldfima innviði þess. Kveikt var í jólatrénu á Austurvelli. Samt kallaði fréttastofa Ríkisútvarpsins mótmælendur aldrei skríl heldur upphóf þá með ýmsum hætti.