Vefþjóðviljinn 151. tbl. 17. árg.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar eru í raun fá mál sem hönd festir á, góð sem slæm. Meðal fárra atriða þar sem kveðið er skýrt að orði er um skattheimtu sveitarfélaga en nýja ríkisstjórnin hyggst láta afnema lágmarksútsvar.
Það verður auðvitað breyting í rétta átt, þó hún skipti litlu í raun. Íslenskir sveitarstjórnarmenn lækka helst ekki útsvar bæjarbúa ótilneyddir. Þær lækkanir sem þó koma eru örfáar og um sáralítið í einu. Aðeins tvö sveitarfélög innheimta lágmarksútsvar.
Íslenskir sveitarstjórnarmenn eru þannig að flest sveitarfélög innheimta nú hæsta mögulega útsvar af íbúunum. Þá peninga nota sveitarstjórnarmenn ekki aðeins í lögbundin verkefni heldur allskyns gæluverkefni, enda eru þeir flestir dauðhræddir við þrýstihópana. Ef dæmigerður íslenskur sveitarstjórnarmaður á að velja milli þess að lækka útsvar eða semja við íþróttafélag um nýja stúku, þá mun hann alltaf velja stúkuna. Hann veit að málið snýst um það hvort íþróttaforkólfarnir berjast með honum eða á móti honum í næsta prófkjöri.
Það er fínt ef ríkið afnemur lágmarksútsvar. En miklu brýnna er að lækka hámarksútsvarið. Ríkið á að senda sveitarstjórnarmönnum skýr skilaboð um að þeir eins og aðrir verði að minnka skattheimtu og útgjöld sín. Sjálfsagt er að veita sveitarfélögunum einhvern frest áður en slík lögbundin lækkun kæmi til framkvæmda, en ríkisstjórnin á að tilkynna opinberlega að eftir eitt eða tvö ár verði hámarksútsvar lækkað nokkuð, og svo aftur ári síðar. Og að sjálfsögðu á ríkið að minnka eigin skattheimtu hraustlega.
Þá munu íbúar sveitarfélaganna hafa meira milli handanna til að eyða í það sem þeir sjálfir vilja eyða í. En sveitarstjórnarmennirnir munu hafa minna milli handanna til að eyða til þeirra sem þeir halda að styðji sig í prófkjöri.