Vefþjóðviljinn 150. tbl. 17. árg.
Það var eitthvað fremur ónotalegt við fund Eyjunnar og annarra snjóhengjumanna á mánudaginn um uppgjör á þrotabúum bankanna. Þetta virtist pólitískur æsingafundur um eigur annars fólks.
Svona er þjóðremban í forsætisráðherranum þar sem hann stendur neyðarvaktina gegn hinni erlendu auðvaldsógn líkt og hann sé með fimm háskólagráður:
[Þjóðin] getur ekki sætt sig við að búa við viðvarandi efnahagslega ógn. Hversu langt viljum við ganga til að verja efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar? Svarið við því er, að við munum ganga eins langt og þarf.
Á fundinum kom einnig fram krafa um að tveir einkabankar í landinu verði þjóðnýttir og stjórn þeirra þar með færð undir ríkisstjórn Framsóknarflokksins. Þar með yrðu allir stóru bankarnir í eigu ríkisins og án erlendra eigenda. Áður hefur hins vegar þótt eftirsóknarvert að erlendir fjárfestar taki þátt í atvinnulífinu hér. En nú eru þeir mikil ógn.
Það er eins gott að þeir sem gera kröfu um að þessir einkabankar verði þjóðnýttir og færðir undir stjórn pólitískra samherja sinna eigi ekki stórra hagsmuna að gæta gagnvart þessum sömu bönkum, séu til að mynda ekki stórskuldugir við þá.
Nema hér sé loks farið að glitta í útfærslu „skuldaleiðréttingarinnar.“