Miðvikudagur 29. maí 2013

Vefþjóðviljinn 149. tbl. 17. árg.

Ný ríkisstjórn tók við á dögunum og ætti að eiga auðvelt verk við að verða betri en sú sem fyrir var. Henni myndi að sjálfsögðu nægja að gera ekki neitt, til að ná slíku markmiði. En hugsanlega setja menn stefnuna hærra en það. 

Fleira skiptir máli en „stóru málin“. Þau „litlu“ geta verið vísbending um það hvort nýir ráðherrar eru í raun í grundvallaratriðum ólíkir fyrirrennurum sínum.

Um daginn var hér nefnd Listahátíð í Reykjavík, sem skattgreiðendur eru nú látnir fjármagna á hverju ári, en í marga áratugi þótti nægja að halda hátíðina annað hvert ár. Það hvort hér verður gerð breyting í sparnaðarskyni verður svolítill mælikvarði á nýja ráðamenn.

Annað dæmi getur verið mjög skýrt. Barið var í gegnum Alþingi að skattgreiðendur tryggðu fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Til stuðnings framkvæmdunum voru lagðir fram útreikningar sem áttu að sýna að skattgreiðendur myndu í raun ekki tapa krónu á framkvæmdinni. Allt var svo gert til að tryggja að Alþingi gæti ekki látið fara fram óháða úttekt á útreikningunum.

Meðal annars neitaði Ríkisendurskoðun beiðni þingnefndar um að fara yfir útreikningana og gaf það furðulega svar að ríkisendurskoðandi persónulega væri vanhæfur til að gera það. Allir hljóta hins vegar að sjá að sé forstöðumaður vanhæfur kemur einfaldlega annar í hans stað, en stofnunin neitar ekki að vinna verkið.

Nú reynir á nýja ráðamenn. Kominn er nýr meirihluti á Alþingi og nýr ráðherra samgöngumála. Mun Alþingi nú sjá til þess að Ríkisendurskoðun vinni þá úttekt sem hún var beðin um? Mun nýr samgönguráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, gera það sem í hennar valdi stendur til að stöðva framkvæmdir og fjárútlát þar til slík úttekt hefur farið fram?

Hvort um sig er mælikvarði á nýja valdhafa.