Þriðjudagur 28. maí 2013

Vefþjóðviljinn 148. tbl. 17. árg.

Íslendingar flytja út mikil verðmæti en eru skikkaðir til að skipta andvirði þeirra í ógjaldgengar krónur.
Íslendingar flytja út mikil verðmæti en eru skikkaðir til að skipta andvirði þeirra í ógjaldgengar krónur.

Hvers vegna ætla menn að óskin um að skipta íslenskum krónum í erlenda mynt sé bundin við „hrægammana“ og eigendur svonefndra jöklabréfa? Íslendingar eiga sjálfir um 500 milljarða króna á innstæðureikningum í bönkum landsins. 

Að fenginni áratuga reynslu af krónunni hversu líklegt er innstæðueigendur vilji halda krónum sínum ef færi gefst til að skipta þeim? Það veit auðvitað enginn og því er „lausn á snjóhengjuvandanum“ ekki endanleg lausn á gjaldeyrisvanda Íslendinga.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir að krónan verði „gjaldmiðill Íslendinga um fyrirsjáanlega framtíð.“ En krónan er ekki gjaldmiðill og hefur ekki verið nema að einhverju leyti um stutt skeið í kringum síðustu aldamót. Henni má ekki skipta í aðra gjaldmiðla og enginn utan Íslands lætur nokkurn hlut af hendi gegn krónu. Handhafar hennar mega svo jafnan þola 5 – 15% árlega rýrnun þessara eigna sinna vegna viðvarandi verðbólgu. Hvenær er sá skattur talinn með þegar rætt er um skattbyrði Íslendinga?