Vefþjóðviljinn 144. tbl. 17. árg.
Á miðvikudaginn fjölluðu fjölmiðlar mikið um væntanlegt ráðherraval, sem var ákaflega fyrirsjáanlegt í augum allra nema álitsgjafa og þeirra sem vel þekkja til. En annað mál frá þessum degi kann að skipta meira máli en fyrirsjáanlegt valið á ráðherrunum, sem allir ætla að fara að sinna mjög spennandi verkefnum.
Eftirlitsstofnun EFTA komst að þeirri niðurstöðu að íslensk regla sem bannar gengistryggingu lána standist ekki EES-samninginn, en hann hefur lagagildi. Eftirlitsstofnunin undirbýr nú málaferli gegn Íslandi vegna þessa.
Hugsanlega vinnur hún það mál. Hún hefur unnið öll mál sem hún hefur höfðað gegn Íslandi, nema hið fræga Icesave-mál, þar sem óvænt fékkst rétt niðurstaða en með þeim afleiðingum að stór hluti landsmanna öðlaðist skynditrú á hvað sem Framsóknarflokknum dytti í hug að segja.
Dómar EFTA-dómstólsins eru ekki bindandi á Íslandi. En ef sú niðurstaða yrði, úti og hér, að EES-samningurinn væri brotinn með því að ekki sé heimilað að gengistengja lán, hvaða afleiðingar hefði það?
Jú, þá væri viðurkennt að EES-samningurinn ætti að tryggja lántakendum og lánveitendum rétt til að semja um gengisbundin lán. Það hefur verið dæmt að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart einkaaðilum, hafi það ekki innleitt EES-reglur réttilega í lög. Íslenska ríkið væri samkvæmt þeim skilningi skaðabótaskylt gagnvart þeim sem hefðu orðið fyrir tjóni af því að íslensk lög bönnuðu gengistryggingu íslenskra lána.
Og hverjir eru það sem hafa orðið fyrir tjóni af því? Jú, það eru þeir sem hafa veitt gengistryggð lán en fengu þau ekki greidd að fullu, þar sem lög þóttu banna gengistrygginguna.
Íslenska ríkið þyrfti, ef þessi skilningur verður niðurstaðan, að greiða fjármögnunarleigufyrirtækjum, bönkum og fleiri vinsælum aðilum bætur fyrir allt það sem þeir hafa þurft að afskrifa af gengislánum vegna þessa.
Það yrðu gríðarlegar fjárhæðir.
Ef þær lenda á ríkinu, þá kæmi sér vel að eiga einhvers staðar ónotað “svigrúm”.
Er ekki rétt að stjórnvöld hafi þetta í huga, áður en þau fara að ráðstafa hundruðum milljarða í niðurfærslur annarra lána?