Vefþjóðviljinn 143. tbl. 17. árg.
Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir að lagðar verði fram:
…tillögur til úrbóta með það að markmiði að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna, minnka tekjutengingar og draga úr undanskotum.
Alveg ljómandi fínt.
En svo segir í kafla um ferðþjónustu:
Fallið verður frá áformum fyrri ríkisstjórnar um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.
Hvers vegna á að flækja skattkerfið með því að hafa „ferðaþjónustu“ í sérstöku skattþrepi? Þetta er þeim mun undarlegra því að í nýju ríkisstjórninni eru menn sem hafa unun af því að segjast ætla að vera með stærilæti við útlendinga sem eiga peninga. Á síðasta ári keyptu útlendingar 77% seldra gistinátta hér á landi og þetta hlutfall mun halda áfram að hækka á næstu árum. En nú á að undanþiggja útlendinga frá því að greiða virðisaukaskatt af gistingu þegar þeir koma í virðisaukaskattslausa laxveiðina.
Svo segir í kafla um menningarmál:
Tónlist njóti sömu hvetjandi ívilnana og kvikmyndagerð, þ.e. að hluti kostnaðar við tónlistarupptökur verði endurgreiddur.
Hvað með striga- og litakaup listmálarans?
Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti jafnframt í viðtali áhuga á því að afnema virðisaukaskatt af barnafötum.
Hér eru því komnar fram nokkrar tillögur af pönnsu- og vöffluborðinu um hvernig má flækja skattkerfið og mismuna skattgreiðendum.
Fer þessum hveitibrauðsdögum ekki að ljúka?