Vefþjóðviljinn 133. tbl. 17. árg.
Formaður Heimdallar lagði til á dögunum að breytingar yrðu gerðar í frjálsræðisátt í áfengissölu og sagði að til dæmis myndu margir fagna því að geta keypt hvítvínsflösku á sama stað og tíma og humarinn. Og um leið tók íslensk þjóðfélagsumræða eitt ruglkastið.
Sjáiði heiminn sem þessir Heimdellingar lifa í. Það er fullt af fólki sem getur ekki veitt sér að borða humar. Svona er þetta lið. Það er í öðrum heimi.
Það er furðulegt að menn komist upp með að andæfa álögum á eldsneyti. Það eru alls ekki allir sem hafa efni á því að eiga og reka bíl. Sennilega hefðu fleiri ráð á því að kaupa sér einn humardisk en einn bíl.
Fjölmargir hafa engin ráð á húsnæðiskaupum. Samt fá þeir sem kvarta yfir verðtryggingu fasteignalána ekki yfir sig svívirðingar. Það myndi kannski breytast ef einhver þeirra yrði grunaður um að hafa keypt sér humar og þannig yfirgefið skipsrúm hjá þeim réttlátu.