Föstudagur 10, maí 2013

Vefþjóðviljinn 130. tbl. 17. árg.

Í dag eru fjögur ár síðan leiðtogar núverandi ríkisstjórnar kynntu stjórnarsáttmála sinn í norræna húsinu. Sú undarlega staðsetning fyrir kynningu íslenskrar ríkisstjórnar átti að vera tákn um að nú hefði tekið við norræn velferðarstjórn, enda létu ráðherrarnir fyrst í stað eins og þeir sætu í einni slíkri. Síðan hefur engum dottið í hug að kalla ríkisstjórnina því nafni, nema í háðungarskyni, og er það enn eitt dæmið um árangursleysi hennar.

Annar minnisvarði um starf ríkisstjórnarinnar var afhjúpaður þegar forseti ASÍ sagði sig úr Samfylkingunni og var búinn að fá sig fullsaddan af samskiptum við stjórnarflokkana. Ef sambærilegt atvik hefði hent annan flokk myndu álitsgjafarnir og fréttamenn líklega rifja það upp flesta daga. 

Þess er víst að vænta að ný ríkisstjórn taki við innan skamms, þó enn sé ekkert fast í hendi um þau mál nákvæmlega. Ákaflega mikilvægt er að nýr meirihluti á Alþingi taki fast á málum og snúi til baka með ótal slæm verk núverandi stjórnvalda. Auðvitað munu margir þar nefna fyrst, að ný viðhorf þurfa að ráða ferðinni í skattamálum, eftir skattahækkunarár vinstrimanna. Taka má undir það. Skattalækkanir eru góð leið til að bæta hag borgaranna og leyfa þeim að halda eftir stærri hluta tekna sinna og eigna til eigin nauðsynja. Vilji menn bæta hag heimilanna sem svo eru kölluð, þá er skattalækkun skilvirk og fín leið til þess.

Mörg slík stór mál mætti nefna. En það má ekki heldur gleyma minni málunum. Ákaflega mörg gæluverkefni og trúaratriði vinstrimanna voru leidd í lög á síðustu fjórum árum. Þar þarf mjög víða að snúa við blaðinu af alvöru. Lítið dæmi er forræðishyggjan sem fólst í því að skipa eigendum fyrirtækja að kjósa svo og svo margar konur til að stjórna fyrirtækjum sínum. Skjótt afnám þeirrar fráleitu lagareglu yrði vísbending um að nýir vendir væru teknir til við að sópa í ráðuneytunum. Og það yrði líka skýr vísbending í gagnstæða átt ef lagareglan fengi að standa óhögguð.

Ætli ekki megi treysta því að væntanlegir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, ef af ríkisstjórnarmynduninni verður, muni ganga ótrauðir til atlögu við pólitíska rétttrúnaðinn? Þeir eru núna allir að safna kröftum fyrir átökin og kveðja sér ekki hljóðs opinberlega nema upp komi stórmál eins og að minna sé borgað fyrir að dæma leik í kvennafótbolta en karlafótbolta.