Vefþjóðviljinn 125. tbl. 17. árg.
Því hafa verið gerð ágæt skil í fréttum að undanförnu hvernig Þingvellir eru troðnir niður í svaðið, ekki síst snemma á vorin þegar jarðvegur er mjög rakur og gróður viðkvæmur. Komast mætti hjá þessari áníðslu með því að leggja alvöru stíga um svæðið og bæta aðra aðstöðu fyrir þá sem sækja vellina heim. Nú þegar koma yfir 500 þúsund ferðamenn á Þingvelli á ári hverju og gera má ráð fyrir að þeim fjölgi hratt á næstu árum.
Þjóðgarðurinn er að mestu háður ríkissjóði um fé til að bæta aðstöðu og koma í veg fyrir skemmdir af völdum átroðnings.
Það er alveg fráleitt ástand fyrir stað sem mörg hundruð þúsund manns vilja njóta á ári hverju.
Rekstrarkostnaður þjóðgarðsins hefur verið á bilinu 120 til 170 milljónir á síðustu árum. Um 70 – 80% kostnaðarins hafa verið greidd úr ríkissjóði.
Það liggur í augum uppi að gestir á Þingvöllum ættu að bera þennan kostnað en ekki almennir skattgreiðendur. 500 þúsund gestir sem greiða 1.000 krónur hver fyrir aðgang myndu skila garðinum 500 milljónum eða þreföldum núverandi kostnaði við restur á garðinum. Það ætti að tryggja honum nægt fé til að taka með sóma á móti fólki og vernda viðkvæma náttúruna. Og losa þar með skattgreiðendur undan 100 til 140 milljóna króna árlegum kostnaði.
Gjaldtöku af þessu tagi fylgir auðvitað umstang og kostnaður en nú þegar innheimta starfsmenn þjóðgarðsins gjöld af tjaldgestum og veiðimönnum. Og alls kyns sjálfvirkar leiðir eru núorðið til í þessum efnum.
Yellowstone þjóðgarðurinn í Bandaríkjunum innheimtir um 3.000 krónur ($25) fyrir hvern bíl sem fer um garðinn eða 1.500 krónur ($12) á hvern gest. Fyrir rútu með 16-25 farþega þarf að greiða 25 þúsund krónur ($200).