Vefþjóðviljinn 124. tbl. 17. árg.
Þrátt fyrir að skuldaleiðréttingaframboðin Dögun, Framsókn, Útvarp saga og Hægri grænir hafi aðeins fengið um þriðjung atkvæða í þingkosningunum í lok apríl er áfram látið líkt og „skuldaleiðrétting“ sé helsta málið sem semja þurfi um til að koma nýrri ríkisstjórn á legg.
Enn er sagt með alvörusvip:
Menn hafa jafnvel tapað öllu eigin fé sínu í íbúðinni sinni.
Hver lofaði því að fjárfesting í íbúðarhúsnæði væri án áhættu? Lofuðu ungir og aðrir skuldlausir skattgreiðendur eða aldraðir lífeyrisþegar þessu? Leigjendur? Hefur einhver þessara hópa lofað að tryggja eigið fé annars fólks í íbúðarhúsnæði? Slíkar tryggingar hafa bara hvergi verið veittar, hvað þá eftirá eins og nú er farið fram á hér á landi.
Auðvitað er miður að fólk tapi á fjárfestingum sínum. En hvar ætla menn að draga mörkin þegar kemur að því að bæta mönnum slíkt tap? Fer ekki best á því að draga þau mörk hér og nú?
En þá er sagt með alvörusvip að menn hafi ekki aðeins keypt húsnæði til að eiga þak yfir höfuðið heldur einnig til að „eiga aukasjóð“ þegar kemur að starfslokum og nú sé hann horfinn. Gott og vel, ef menn fallast á þetta hve löng verður röðin af fólki sem vill fá bættar fjárfestingar sem það hugsaði til eftir áranna? Hvað með þá sem tapað hafa réttindum í lífeyrissjóðum? Gildir ekki það sama um þá sem keyptu hlutabréf í bönkunum eða öðrum fyrirtækjum sem urðu afvelta haustið 2008? Þau verðmæti eru að eilífu glötuð en húsnæðisverð getur hins vegar hækkað umfram verðlag.
Því má svo heldur ekki gleyma að ríkissjóður eys árlega milljörðum króna í að niðurgreiða vaxtakostnað skuldugra íbúðareigenda. Í fyrra fóru 17 milljarðar króna í vaxtabætur til skuldugra íbúðareigenda. Það virðist algerlega vanþakkað. Að auki er svo væntanlegur yfir 100 milljarða króna reikningur vegna 90% lána Framsóknarflokksins til íbúðarkaupenda í gegnum Íbúðarlánasjóð.