Vefþjóðviljinn 111. tbl. 17. árg.
Á því hefur verið vakin athygli undanfarið að ríkissjóður skuldar um 5 milljónir króna á hvern Íslending. Það hefur verið bent á að verði þessar skuldir verða skildar eftir handa ungu kynslóðinni og þeim deilt á þá sem eru undir 25 ára í dag séu þær um 21 milljón króna á mann.
Stór hluti af tekjuskatti einstaklinga til ríkissjóðs fer í vaxtagjöld af þessum ofboðslegu skuldum. Á meðan nýtast þessar skatttekjur ekki til annarra hluta, en sem kunnugt er mun aldrei skortur á „góðu málunum“ sem ríkisvaldið hefur á sinni könnu.
Til að auðvelda fólki á glöggva sig á þessari stöðu hefur Rannsóknarsetur um samfélags- og efnahagsmál (RSE) sett upp vefinn www.rikid.is . Þar getur fólk reiknað út skattbyrði sína og hver hlutur þess er í að greiða niður áfallnar skuldir á næstu árum. Eins er hægt að skoða ríkisreikninginn og skera niður, eða bæta við útgjaldaflokka, til að átta sig betur á því hvað fylgir því að vera skattborgari á Íslandi.
Á vefnum er jafnframt skuldaklukka sem sýnir hve hratt skuldir hins opinbera eru að aukast.
Rætt er við Heiðar Guðjónsson hjá RSE í Morgunblaðinu í dag um þessi mál:
Spurður hvort ekki sé eðlilegt að þjóðfélag stofni til skulda þegar byggt er upp samfélag, þá svarar hann: „Gott og vel, tökum ástandið árið 2000,“ segir hann.
„Hið opinbera skuldaði nánast ekki neitt og unga sjálfstæðismenn dreymdi um skuldlaust Ísland. Voru þá engir vegir? Voru þá skólarnir ómögulegir? Ef við berum saman gæði þjónustu og innviða 2013 og 2000, þá er nánast enginn munur, en núna skuldar hið opinbera hinsvegar rúma 2.100 milljarða. Er það bara hruninu að kenna? Nei, það er vegna þess að eftir hrunið hefur núverandi ríkisstjórn aukið skuldir um 1.200 milljarða.“
Þar vísar Heiðar til þess að fjárlagahallinn síðustu fjögur ár nemi samtals 460 milljörðum og halli Íbúðalánasjóðs á sama tíma nemi 150 milljörðum. „En auk þess nemur hallinn á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna yfir 500 milljörðum á þessu tímabili,“ segir hann.
„Þá segja stjórnarþingmenn að þeir hafi ekki getað stoppað skuldasöfnunina. Út af hverju? Þannig að velferðin sem talað er um, hún er tekin að láni. Þetta er 1.200 milljarða skuldahali sem varð til á fjórum árum og komandi kynslóðir þurfa að borga. Hvaða réttlæti er það? Ef núverandi kynslóðir hafa ekki efni á að borga, þá eiga þær ekki heldur að leyfa sér að taka að láni. Það er ekkert réttlæti í því.“