Föstudagur 19. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 109. tbl. 17. árg.

Það er augljóst að samningur, sem menn skrifa undir með byssuhlaup við gagnaugað, hefur ekkert gildi fyrir dómi.
Það er augljóst að samningur, sem menn skrifa undir með byssuhlaup við gagnaugað, hefur ekkert gildi fyrir dómi.

Síðustu vikurnar hafa framsóknarmenn gefið ótrúleg kosningaloforð, sem myndi kosta mörg hundruð milljarða króna að uppfylla. Þeir þylja sömu þuluna á öllum kappræðufundum: Það er hægt að borga fyrir þetta, við ætlum ekki að taka peningana úr ríkissjóði heldur frá hrægömmunum. 

Og þegar framsóknarmenn hafa talað svona í nokkrar vikur, þá bæta þeir því við að nú sé komin „samstaða um að þetta sé hægt“. 

Fáir þora að æmta eða skræmta. „Hrægammarnir“ eru auðvitað bara uppnefni á óskilgreindum hópi, sem ekki er vitað hverjir eru í, og allra síst vita framsóknarmenn það, svo enginn spyr„hrægammana“ hvort þeir séu tilbúnir til að borga kosningaloforð Framsóknarflokksins. Og enginn mótframbjóðandi framsóknarmanna þorir að benda á að þetta séu líklega tómir loftkastalar, því enginn vill láta það um sig spyrjast að hann vilji ekki kreista hrægammana. Sá sem hefur efasemdir um að sækja megi mörg hundruð milljarða í greipar hrægammanna, hann stendur ekki með íslenskum heimilum.

Jafnvel spyrlar kappræðuþáttanna virðast ekki leggja í að véfengja kenningar framsóknarmanna. Enginn þeirra spyr einu sinni framsóknarmenn hvaða varatillögu þeir hafi til að fjármagna loforðin, ef ekki reynist gull að sækja í greipar hrægammanna. Enginn þeira spyr hvort þeir hjá X-B hafi nokkurt plan B.

Í vikunni birtist hins vegar mjög skýr blaðagrein eftir Eirík Elís Þorláksson lögfræðing. Þar segir meðal annars:

En hvaða líkur eru nú á því að samningar um efnið hafi yfir höfuð eitthvert gildi? Framsóknarmenn segjast ætla að gera þetta allt saman með „samningum“. „Hrægammarnir“ eigi hér að vísu mikið fé en það fé hafi verið tekið í gíslingu og verði ekki sleppt nema með „samningum“ um að „hrægammarnir“ taki að sér að borga kosningaloforð Framsóknarflokksins á útleiðinni. Ef „hrægammarnir“ vilji ekki semja, þá verði féð bara fast hér áfram og höftin föst í sessi. En hvaða gildi hefði slíkur „samningur“? Allir lögfræðingar þekkja svokallaða ógildingarreglu samningaréttarins, sem á fræðimáli heitir 36. grein laga 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga. Þar segir að samningi megi „víkja til hliðar í heild eða hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.“ Við mat á þessu skuli líta til „efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til“. Það er augljóst að samningur, sem menn skrifa undir með byssuhlaup við gagnaugað, hefur ekkert gildi fyrir dómi. Þegar annar samningsaðilinn, íslenska ríkið, hefur öll ráð hins í hendi sér með löggjafarvaldinu, og heldur eigum gagnaðilans föstum árum saman, til þess að knýja hann til samningsgerðar er augljóst ójafnræði með þeim. Hvaða gildi mun slíkur samningur hafa fyrir dómi? Þar dugir ekki að kalla gagnaðilann bara „hrægamm“ eins og gefst víst vel í kosningabaráttu. Hversu líklegt er, að þeir „samningar“ sem Framsóknarflokkurinn segist ætla að gera við ónafngreinda „hrægamma“, og borga þannig hæstu kosningaloforð Íslandssögunnar, muni hafa mikið gildi þegar þeir koma fyrir dómstóla? Varla heldur neinn að gagnaðilarnir láti ekki reyna á gildi samninganna. Sjálfir hrægammarnir.

Er ekki rétt að framsóknarmenn svari þessum atriðum og svari því einnig hvernig þeir hyggist efna kosningaloforðin, ef „hrægamma“-leiðin reynist ekki fær?

Hefur X-B eitthvert plan B?