Vefþjóðviljinn 95. tbl. 17. árg.

Þeir sem keyptu húsnæði í þéttbýli á árunum 1990 til 2004 urðu flestir eignamenn á árunum 2005 til 2008. Íbúðir þeirra snarhækkuðu í verði á skömmum tíma.
Hér er eitt dæmi: Íbúð keypt miðsvæðis í Reykjavík árið 1997 á 8 milljónir króna. Kaupin voru fjármögnuð að fullu með lánsfé. Árið 2010 var íbúðin seld á 35 milljónir króna en lánin stóðu í 13 milljónum. 22 milljónir í hagnað.
Á sama tíma hækkuðu laun sömuleiðis langt umfram verðbólgu sem gerði afborganir léttari.
Hví í veröldinni skyldi þessi lukkulegi íbúðareigandi fá „leiðréttingu“ á lánum sínum? Ef ríkissjóði áskotnast fjármunir frá „hrægömmunum“ eiga þeir að renna í vasa þessa manns?
Það er hins vegar raunaleg staðreynd að ýmsir, alls ekki allir, í þessum hópi heppinna íbúðakaupenda ákváðu að leysa hluta af þessum hagnaði út án þess að selja húsnæðið. Það gerðu þeir með því að veðsetja hin nýfengnu verðmæti í íbúðum sínum. Nýr bíll hér, eldhúsinnrétting þar, fellihýsi, skíðaferðir og já flatskjáir sem því miður munu ekki vera það forgengilegasta sem menn tóku lán fyrir á þessum árum.
Þegar áfallið reið yfir haustið 2008 var því lítið borð fyrir báru hjá sumu fólki sem hafði þó hagnast vel á íbúðakaupum. Lánin hækkuð og íbúðirnar lækkuðu. Laun drógust saman.
Nú er gerð krafa um að lán þessa hóps verði „leiðrétt“ á sama hátt og til að mynda þeirra sem keyptu á árunum 2006 – 2008 og töpuðu nær samstundis öllu því sem þeir höfðu lagt í íbúðir sínar.
Hvað á eiginlega að kalla kröfu þeirra sem högnuðust vel á húsnæðiskaupum og notuðu hagnaðinn til að skuldsetja sig frekar en vilja nú fá „leiðréttingu“?
Ég vil fá nýjan hraðbanka á húsvegginn!