Fimmtudagur 4. apríl 2013

Vefþjóðviljinn 94. tbl. 17. árg.

Framsóknarmenn voru svo uppteknir af hugmyndum sínum um stjórnlagaráð í byrjun árs 2009 að þeir gleymdu skuldavanda heimilanna.
Framsóknarmenn voru svo uppteknir af hugmyndum sínum um stjórnlagaráð í byrjun árs 2009 að þeir gleymdu skuldavanda heimilanna.

Þorsteinn Sæmundsson rekstrarfræðingur (ekki stjörnufræðingur) frambjóðandi Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi sendir formanni sínum kaldar kveðjur í Morgunblaðinu í dag. 

Þar segir hann að mikil mistök hafi verið gerð í febrúar 2009 og ríkisstjórnin misst af tækifæri til að leiðrétta skuldir heimilanna. Hinn 1. febrúar 2009 hafði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins leitt Jóhönnu og Steingrím til valda og veitti næstu mánuðina öllum gerðum þeirra heilbrigðisvottorð sitt með því að verja ríkisstjórnina í þinginu.

Þorsteinn segir í grein sinni:

Svik stjórnarinnar í febrúar 2009. Í febrúar 2009 var tækifæri til að leiðrétta stökkbreyttar skuldir áður en bankarnir voru afhentir vogunarsjóðunum með undirskrift eins manns, Steingríms J. Sigfússonar. Þá gekk gott tækifæri okkur úr greipum til að tryggja afkomu íslenskra heimila. Afleiðingarnar urðu þær að fjöldi heimila komst á vonarvöl. Frá hruni hafa um fjögur þúsund heimili ratað í fang bankakerfisins og Íbúðalánasjóðs.

Á þessum tíma sat Steingrímur í skjóli Framsóknarflokksins!

Það er óvanalegt að frambjóðandi flokks segi svo hreint út að formaður hans hafi svikið landsmenn og glutrað niður tækifæri til að tryggja afkomu íslenskra heimila.