Helgarsprokið 24. mars 2013

Vefþjóðviljinn 83. tbl. 17. árg.

Hvers vegna gerði Sigmundur Davíð ekki 20% leiðréttingu lána að skilyrði fyrir stuðningi sínum við ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms í janúar 2009?
Hvers vegna gerði Sigmundur Davíð ekki 20% leiðréttingu lána að skilyrði fyrir stuðningi sínum við ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms í janúar 2009?

Framsóknarflokkurinn getur engu svarað um hvernig „leiðrétta“ eigi verðtryggðar skuldir. Hvað eftir annað er komið að tómum kofanum hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um hvaða skuldir eigi að leiðrétta, hve mikið, hve langt aftur í tímann og hvaðan og hvernig peningarnir eigi að koma.

Eina sem hönd á festir er að flokkurinn ætlar að skipa nefnd um málið eftir kosningar og Karl Garðarsson frambjóðandi flokksins í Reykjavík hefur viðrað hugmyndir um 2% hækkun á tekjuskatti til að ná í peninga fyrir þessu. 

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var Sigmundur inntur eftir þessu rétt einu sinni. Er þetta ekki dýrt Sigmundur?

Ja rétt eins og við lögðum til 20% leiðina á sínum tíma er því haldið fram að við ætlum að láta ríkið fjármagna þetta. Það hefur aldrei staðið til. Enda væri það óeðlilegt, ríkið hefur ekki svigrúm til þess. Það er sérkennilegt að heyra til að mynda varaformann Sjálfstæðisflokksins halda því fram að við ætlum að ráðast í nokkur hundruð milljarða ríkisútgjöld til að fjármagna þetta, sem er ekki rétt, en á sama tíma segir þessi varaformaður Sjálfstæðisflokksins að þau ætli að lækka skuldir heimilanna um 20% með endurgreiðslu skatta. Þetta er auðvitað málflutningur sem gengur ekki upp. Þetta verður að byggjast á því að fjármagna þetta með eðlilegum leiðum það er niðurfærslunni á kröfu vogunarsjóðanna, sem er óhjákvæmileg held ég að flestra mati.

Fyrst um 20% leið Framsóknarflokksins, sem tók við af 90% leiðinni í stefnuskrá flokksins um íbúðalán. Hvers vegna gerði Sigmundur 20% leiðina ekki að skilyrði í janúar 2009 þegar hann stakk upp á því að Jóhanna og Steingrímur tækju við stjórn landsins með stuðningi Framsóknarflokksins? Án stuðnings Sigmundar Davíðs hefði minnihlutastjórn VG og Samfylkingar aldrei orðið til. 

Það er heldur ekki nægilega gott svar hjá Sigmundi að snúa talinu að tillögum annarra flokka. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til að í stað þess að leggja hluta launa í séreignarsparnað geti menn sparað með því að greiða inn á höfuðstól lána sinna og aukið þar með eignarhlut sinn í húsnæði sínu. Þetta er ekki útgjaldaauki eða tekjutap í bráð fyrir ríkissjóð. Til viðbótar hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt til sérstakan skattaafslátt vegna afborgana af íbúðaláni eða vegna sparnaðar vegna væntanlegra íbúðarkaupa. Skattaafslátturinn vegna afborgana gæti rýrt tekjur ríkissjóðs um 15 milljarða króna á ári en á móti kæmu væntanlega jákvæð áhrif af lækkandi skuldum og afborgunum fólks. Tillögur Sjálfstæðisflokksins virðast því nokkuð mótaðar og flokkurinn hefur haft fyrir að útfæra þær og reikna af þeim tekjutapið fyrir ríkissjóðs. Ekkert af því hefur Framsóknarflokkurinn gert.

Þá víkur sögunni að „vogunarsjóðunum“ eða því sem sumir nefna hrægamma. Vilja þeir gefa ríkissjóði Íslands 200 til 400 milljarða?  Gerum bara ráð fyrir því, enda eru þeir kunnir að mannúð og mildi. Hvernig á þá að ráðstafa slíkri himnasendingu? Til þeirra sem keyptu húsnæði fyrir árið 2004 og hafa hagnast verulega á því? Til þeirra sem leystu út hluta af þeim hagnaði fyrir hrun með því að hlaða auknum lánum á húsið til að fá sér jeppa eða kaupa hlutabréf í Apple?  Til að byggja nýjan Landsspítala? Eða greiða eitthvað af hrikalegum skuldum ríkissjóðs Íslands og lækka vaxtakostnað um milljarða á ári? Við því hefur Framsóknarflokkurinn enginn svör.

Því má svo bæta við til umhugsunar að síðast er Vefþjóðviljinn hafði af því veður voru íslenskir lífeyrissjóðir, alls kyns aðrir íslenskir fjárfestar og fyrirtæki, Seðlabanki Íslands, hefðbundnir erlendir bankar og sparifjáreigendur meðal kröfuhafa föllnu bankanna.  Hrægammar allir saman?