Vefþjóðviljinn 84. tbl. 17. árg.
Í síðustu viku kom út vorhefti tímaritsins Þjóðmála og kennir þar margra grasa. Óhætt er að mæla eindregið með því að allir áhugamenn um frjálslynt og borgaralegt þjóðfélag gerist áskrifendur að Þjóðmálum. Á tímum þegar mjög er sótt að frjálslyndum viðhorfum er tímaritið Þjóðmál mikilvægur hlekkur í vörn borgaralegs þjóðfélags.
Eftir þrot stóru bankanna þriggja árið 2008 varð íslensk þjóðmálaumræða fyrir eigin hruni. Fjarstæður og hreinir órar hafa síðan notið töluverðs stuðnings í umræðunni, rangfærslur og ósanngirni eru daglegt brauð og meiðandi sleggjudómum er iðulega tekið með miklum fögnuði. Gegn þessu er mikilvægt að snúast. Vorhefti Þjóðmála flytur meðal annars fyrirlestur þann sem Hannes H. Gissurarson prófessor flutti í Háskóla Íslands á sextugsafmæli sínu á dögunum. Svarar Hannes þar mörgu því sem síðustu árin hefur verið fullyrt gegn frelsi og frjálshyggju. Taka svörin gagnrýninni mjög fram.
Eins og menn vita hafa róttækir vinstrimenn farið mikinn undanfarin ár. Þeir hafa notið umrótsins eftir bankahrunið, mikillar liðveislu Ríkisútvarpsins og svo þess hversu linir hægrimenn og aðrir þeir sem verja ættu borgaralegt samfélag og almenna skynsemi hafa verið. Í vorhefti Þjóðmála fjallar Ragnhildur Kolka um einn anga þessarar þróunar, breytingar sem gerðar hafa verið á aðalnámskrá grunnskóla og innrætingunni sem stunduð er á grunnskólabörnum. Ættu grunnskólabörnin nú að fá öflugan grunn undir kynjafræðina sem nú er kennd í mörgum framhaldsskólum og kennararnir stæra sig gjarnan af því að reynt sé að móta hugsunarhátt nemenda. Þessum mikilvægu málum hefur ótrúlega margt borgaralegt fólk gefið allt of lítinn gaum á síðustu árum.
Sendiherrarnir fyrrverandi, Eiður Guðnason og Einar Benediktsson, skrifa vekjandi grein um uppgang Kínaveldis og hversu miklum og hratt vaxandi áhrifum kommúnistastjórnin í Peking hefur náð í heiminum á allra síðustu árum, með gríðarlegum viðskiptum. Eins og á svo ótal mörgum öðrum sviðum eru íslenskir ráðamenn hér með rammlega lokuð augu, en áhugi og útþensla Kínverja sneiðir ekki hjá Íslandi frekar en öðrum löndum. Hér eru menn hins vegar óðir og uppvægir að fá mola af stóra kínverska borðinu.
Afar margt annað áhugavert er í Þjóðmálum. Áskrift og stök hefti fást í Bóksölu Andríkis.