Vefþjóðviljinn 67. tbl. 17. árg.
Það er eins og fjölmiðlamönnum þyki óviðeigandi að sýna sumum stjórnmálamönnum eðlilegt aðhald. Hversu hátt sem þeir klífa metorðastigann þá skuli þeir alltaf meðhöndlaðir eins og sakleysingjar sem ekki komi til greina að þurfi að svara fyrir nokkuð né bera ábyrgð á neinu sem gert er.
Í vikunni var Katrín Jakobsdóttir, ráðherra og formaður Vinstrigrænna, á svonefndri „beinni línu“ hjá DV. Þar geta lesendur sent inn spurningar og gesturinn svarar svo einhverjum hluta af þeim.
Lesandi spurði Katrínu Jakobsdóttur spurninganna: „Var rétt hjá þér að segja já við Svavarssamningnum og mundirðu segja já aftur undir sömu kringumstæðum?“
Og menntamálaráðherra og nýr formaður annars stjórnarflokksins svarar:
Á sínum tíma voru ekki forsendur til að fara með Icesave málið fyrir dóm. Þess vegna var farin sú leið að leita samninga og það var gert þrisvar sinnum enda voru mótaðilarnir ekki reiðubúnir að fara með málið fyrir dóm. Þegar það lá fyrir að ekki gekk að ná samningum féllust þeir fyrst á að fara fyrir dóm og þá niðurstöðu þekkjum við nú og fögnum henni öll. Hins vegar var ókleift að fara fyrir dómstól á sínum tíma og því má segja að tíminn og samningarnir sem voru gerðir hafi að einhverju leyti hjálpað málinu áfram. En það er margt hægt að læra af þessu máli.
Enginn fjölmiðill fjallar um þetta svar ráðherrans. Katrín segir fullum fetum að ekki hafi verið hægt að „fara með Icesave málið fyrir dóm“ af því að mótaðilarnir hafi ekki verið reiðubúnir til þess. En þegar ekki hafi gengið að ná samningum, hafi þeir hins vegar fallist á að fara fyrir dóm.
Hvenær féllust „mótaðilarnir“ á að „fara með málið fyrir dóm“? Heldur Katrín Jakobsdóttir að Íslendingar, Bretar og Hollendingar hafi bara einn daginn ákveðið að „fara með málið fyrir dóm“? Kom dómsmálið ekki einfaldlega til af því að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, stefndi Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn? Og að Evrópusambandið stefndi sér síðan inn í málið til að leggjast á sveifina gegn Íslandi? Bretar og Hollendingar voru engir aðilar að málinu. Ísland átti ekkert frumkvæði að þessum málaferlum.
Af hverju segir ráðherrann að „mótaðilarnir“ hafi fallist á að fara fyrir dóm? Hvaða mótaðilar féllust á það og hvenær? Hvers vegna segir enginn fjölmiðill frá þessum skilningi menntamálaráðhera og nýkjörins flokksformanns? Ætli þeir væru jafn þögulir ef einhver annar flokksformaður talaði svona? Hvers vegna spyr enginn fjölmiðill ráðherrann hvenær mótaðilarnir, Bretar og Hollendingar, hafi fallist á að fara með málið fyrir dóm. Og fallist á kröfu hvers um það?
Það er ekki eins og hér tali einhver, sem ekki ætti að vita um hvað hún talar. Hér talar ráðherra og flokksformaður. Og málið er nú bara Icesave og dómur EFTA-dómstólsins. Ef ráðherra þekkir ekki þessi grundvallaratriði eftir fjögurra ára setu í ríkisstjórn, hvernig er hann heima í öðrum málum?
Fyrir utan allt hitt í svari ráðherrans. Íslendingar þurftu ekkert að koma Icesave-málinu fyrir dóm. Málið snerist um það að Bretar og Hollendingar töldu sig eiga fjárkröfu á hendur Íslendingum og því var það auðvitað þeirra mál að stefna Íslendingum til greiðslu, ef þeir vildu. Íslendingar gátu ekki „farið með málið fyrir dóm“ og höfðu enga ástæðu til. Ekki voru þeir að gera fjárkröfur á hendur Hollendingum. Það var ekkert vandamál Íslendinga að „fara með málið fyrir dóm“. Það eru þeir, sem gera kröfur, sem hafa ástæðu til slíks.