Vefþjóðviljinn 66. tbl. 17. árg.
Í ályktun flokksþings Framsóknarflokksins í febrúar sagði:
Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt.
Þessi „leiðrétting“ er ekki útfærð í ályktuninni en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins vill skipa nefnd um málið eftir kosningar, ef marka má það sem hann sagði á Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudaginn var.
En Árni Páll Árnason, þáverandi viðskiptaráðherra, skipaði einmitt sérstaka verðtrygginganefnd árið 2011. Formaður nefndarinnar var landsdómsákærandinn og framsóknarþingmaðurinn Eygló Harðardóttir. Nefndin skilaði af sér skýrslu um málið fyrir tveimur árum. Þar var engin tillaga eða útfærsla frá Eygló um leiðréttingu á svonefndum stökkbreyttum verðtryggðum húsnæðislánum.
Hvers vegna nýtti framsóknarþingmaðurinn ekki þetta tækifæri til að sýna landsmönnum hvernig farið er að því að „leiðrétta“ lán? Það er bara ekkert um það í séráliti hennar.
En Sigmundur Davíð ætlar að skipa aðra nefnd sem á að sýna mönnum töfrabrögðin. Eftir kosningar.