Vefþjóðviljinn 55. tbl. 17. árg.
Á landsfundi VG, sem kallar sig róttækan femínískan jafnréttisflokk, var lagt til að konum yrði bannað að ganga með börn annarra kvenna. Þetta hefur verið nefnt „staðgöngumæðrun“ fyrir fólkið sem þarf klunnaleg nafnorð yfir allt.
Í ályktun fundarins segir:
Með því að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni væri verið að samþykkja þá hugmynd að það sé í lagi að nota líkama annarra sem leið að eigin markmiði. Slíka sýn á manneskjuna getum við ekki og eigum ekki að samþykkja.
Sérstaklega var tekið fram að einu gilti þótt „staðgöngumæðrunin“ væri í velgjörðarskyni.
Nú skilur Vefþjóðviljinn auðvitað ekki hvers vegna kona má ekki taka að sér að ganga með barn annarrar konu. Konur sem aðrir mega slíta sér út á líkama og sál við að ala upp börn annars fólks, til að mynda á leikskólum á Íslandi eða í sjálfboðastarfi á munaðaleysingjahæli í Kalkútta.
Áður hafa vinstri grænir bannað konum að sýna líkama gegn greiðslu, dansa naktar eða stunda hvers kyns kynlíf gegn greiðslu. Og raunar körlum einnig þótt það heyrist aldrei annað en að það sé „rangt að gera líkama kvenna að söluvöru.“
Þá eru þeir í óða önn að banna konum sem öðrum að innbyrða alls kyns efni, þar á meðal algengar fæðutegundir eins og sykur. Það er gert í þrepum, fyrst skattlagt, svo er bannað að auglýsa, svo gert óaðgengilegt og loks bara bannað.
Allt takmarkar þetta ráð kvenna yfir eigin líkama.
Var ekki róttæka kvenfrelsishreyfingin einhvern tímann með það á stefnuskrá sinni að konur ættu að hafa ráðstöfunarrétt yfir líkama sínum? Og er það ekki líka sagt í nýjustu landsfundarályktunum VG?
En Auður Alfífa Ketilsdóttir fulltrúi á landsfundi VG sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að konur á Íslandi hefðu ekki réttar aðstæður til að taka ákvörðun um slíka ráðstöfun á eigin líkama, sem „staðgöngumæðrun“ væri. Það væri til dæmis ekki jafnrétti milli kynjanna. Hún bætti svo við:
Staðan er ekki sú að konur séu hamingjusamar, glaðar og frjálsar og geti tekið kærleiksríka ákvörðun um velgjörð.
Kona þarf sumsé að vera hamingjusöm og sýna það (glöð) og frjáls til að uppfylla kröfur VG um konu sem getur tekið ákvörðun um eigin líkama. Vefþjóðviljinn efast um að stjórnmálaflokkar hafi það beinlínis í hendi sér að gera konur hamingjusamar og glaðar. En þeir geta hjálpað til við að gera þær frjálsar. Og hvaða flokkur er það helst sem tekur frelsið af konum á Íslandi?