Föstudagur 22. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 53. tbl. 17. árg.

Fyrir nokkru kvartaði Margrét Tryggvadóttir, sem í síðustu kosningum var kjörin á þing fyrir Borgarahreyfinguna, sáran yfir því að stjórnarandstaðan hefði með ræðuhöldum tafið í tvo daga að mælt yrði fyrir „tekjuhluta fjárlaga“ og skattamálum „komið til nefndar og umsagna.“ Þetta fannst henni mjög ólýðræðislegt. 

Hló Vefþjóðviljinn þá að því að á heimasíðu sinni kynnti Margrét sig með orðunum: „Margrét er íbúi á plánetunni jörð og einn af atvinnupönkurum Hreyfingarinnar á Alþingi.“ Var mjög spaugilegt að fylgjast með „atvinnupönkaranum“ hneykslast á því að þingmál ríkisstjórnar tefðust á leið sinni til nefndar og að „tekjuhlutinn“ kæmist ekki strax til „umsagna“ . Fannst Vefþjóðviljanum þetta mjög sérstakur „pönkari“.

Margrét Tryggvadóttir hefur greinilega séð að sér. 

Hún er að vísu ekki hætt að berjast fyrir því að þingmál ríkisstjórnarinnar komist hratt í gegnum alþingi. 

En hún er búin að breyta kynningunni á sér á heimasíðu sinni.  Nú stendur þar að Margrét sé „íbúi á plánetunni jörð og einn af þingmönnum Hreyfingarinnar og Dögunar á Alþingi.“

Hún er því hætt að vera pönkari. Nú er hún virðulegur þingmaður. 

Og þingmaður Hreyfingarinnar og Dögunar. Sem hvorug fengu að vísu mann kjörinn í síðustu kosningum.