Mánudagur 18. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 49. tbl. 17. árg.

Fréttamenn eru gjarnir á að fullyrða. Frétt Ríkissjónvarpsins á laugardaginn af því að Steingrímur J. Sigfússon myndi ekki gefa kost á sér til formanns á næsta landsfundi Vinstrigrænna, lauk á þessum orðum þingfréttaritara: „Steingrímur kom einn og fór einn frá fundinum eftir að hafa tilkynnt sennilega stærstu pólitísku ákvörðun sína frá því hann ákvað að stofna Vinstrihreyfinguna grænt framboð og það var ekki annað að sjá en honum væri létt, enda ákvörðunin tekin af fúsum og frjálsum vilja, eins og hann sagði sjálfur.“

Hér er dæmi um hæpna fullyrðingu. Fréttastofa Ríkisútvarpsins fullyrðir að ráðherrann hafi tekið ákvörðun sína „af fúsum og frjálsum vilja, eins og hann segir sjálfur.“ Það getur vel verið rétt, en hvað veit fréttastofan um það? Hafði fréttastofan kannað það eitthvað? Hvers vegna er fullyrt um þetta, án þess að fram komi hvað býr að baki fullyrðingunni? Var það eitthvað meira en orð Steingríms? 

Þetta finnst einhverjum vafalaust smámál, en þetta er dæmi um vinnubrögð sem eru allt of algeng. Persónuleg skoðun á málavöxtum er gerð að staðreynd í frétt. Og er hér ekki velt vöngum yfir mati fréttamannsins á stærð ákvörðunarinnar, því fátt hefur enn komið fram sem bendir til þess að raunverulegra breytinga sé að vænta hjá vinstirgrænum, fyrir utan að nýr einstaklingur sest í formannsstólinn. Verður raunveruleg breyting á Vinstrihreyfingunni grænu framboði eða ekki?

Ef marka má umræðuna síðustu daga hafa vinstrigrænir ekki efnisleg rök gegn þeirri skoðun að litlar líkur séu á því að í því felist raunveruleg breyting að formennska vinstrigrænna flytjist frá Steingrími J. Sigfússyni til Katrínar Jakobsdóttur, en Steingrímur sitji áfram á þingi. Þangað til annað kemur í ljós hlýtur fólk því að líta svo á, að skömmu fyrir kosningar sé reynt að breyta ímynd en ekki innihaldi.

Katrín Jakobsdóttir hefur verið við hlið Steingríms alla valdatíð þeirra, staðið með honum að öllum gjörðum stjórnarinnar og greitt undantekningarlaust atkvæði eins og Steingrímur. Hún er vafalaust sátt við störf þeirra beggja og telur það líklega fremur hrós en gagnrýni þegar sagt er að ekki sé að vænta raunverulegra breytinga með því sem tilkynnt var um helgina. 

Innan forystu vinstrigrænna virðist alger samstaða vera um þessa breytingu á formannsstólnum, svo varla gerir forystan ráð fyrir breytingum á stefnu og gjörðum flokksins. Forystan kveðst vera hæstánægð með störf sín síðustu ár svo varla myndi hún vera einhuga um breytingu á formannsstólnum, ef hún héldi að það þýddi stefnubreytingu og nýtt innihald.