Þriðjudagur 19. febrúar 2013

Vefþjóðviljinn 50. tbl. 17. árg.

Kolbrún Bergþórsdóttir á Morgunblaðinu er einn skemmtilegasti blaðamaður landsins. Pistlar hennar og önnur skrif eru yfirleitt ánægjulestur hvort sem menn eru sammála henni eða ekki, sem Vefþjóðviljinn er auðvitað stundum ekki, enda er hún Evrópusambandssinni og langtímakrati.

Sumarið 2011 skrifaði hún pistil í blaðið og sagði þar meðal annars:

Eitt sinn var ég félagi í Samfylkingunni. Þar komst ég að því að viss ógleði greip um sig meðal manna þar á bæ í hvert sinn sem nafn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar var nefnt. Árin hafa liðið en ekkert hefur breyst í þeim efnum. Reyndar er það svo að hjá ákveðum hópi virðist mega segja hvað sem er um Hannes og þar er talað eins og hann sé þjóðhættulegur maður sem verði að hafa gát á og helst svipta starfi.

Hinn flinki stílisti Guðmundur Andri Thorsson skrifaði fyrir ekki löngu mikla grein í Fréttablaðið sem átti að sýna að Hannes væri hættulegur maður. Prófessorinn gengi laus uppi í Háskóla og væri þar að spilla æskulýðnum. Hann þægi laun fyrir það að fylla hugi ístöðulítilla ungmenna af ranghugmyndum og órum um það að vit væri í frjálshyggjunni. Ekki fæ ég nú séð að það sé glæpur. En ég er reyndar á þeirri skoðun að það sé þó nokkurt vit í frjálshyggjunni. Mér finnst hún ekki hættuleg, miklu fremur forvitnileg og sumu þar er ég alveg hjartanlega sammála. Hins vegar finnst mér sú efnahags- og atvinnustefna sem forræðishyggjuflokkurinn Vinstri grænir fylgir nánast vera þjóðhættuleg.

Næst segir Kolbrún í greininni að þáverandi ritstjóri tiltekinnar vefsíðu hafi nýlega skrifað grein „þar sem hann sagði að hatrið, ofstækið og brenglunin sem birtist í skrifum Hannesar og félaga hans væri af sama meiði og þegar fjöldamorðinginn Anders Breivik kallaði Gro Harlem Brundland landsmorðingja.“ Þessi samlíking sé ósmekkleg og nái engri átt, en sama megi raunar segja um viðbrögð sem greinin hefði fengið á athugasemdakerfi vefsins, og rekur Kolbrún mjög ósmekklegt dæmi um slíkt. Svo segir hún:

Óþverrinn í athugasemdakerfi Eyjunnar kemur stöðugt á óvart. Það er orðin áleitin spurning hvort það eigi ekki að loka fyrir þetta athugasemdakerfi í eitt skipti fyrir öll. Fólk getur þá einbeitt sér að því að skrifa sóðaskap á Fésbókinni. Þráinn Bertelsson nefndi þar Hannes í færslu og sagði í annarri smekklausri samlíkingu: „Þjóð sem gerir hægriöfgamenn að háskólaprófessorum hefur ekki efni á því að afgreiða norska hægriöfgamenn sem geðsjúklinga.“ Hver er glæpur Hannesar, annar en sá að vera á annarri pólitískri skoðun en þessir menn? Hannes er fyrirferðarmikill, tekur sterkt til orða og má vissulega búast við að fá andsvör. Sennilega hefur hann einhvern tíma móðgað þessa menn illilega, kannski kallað þá Baugspenna sem þykir svívirðilegt skammaryrði. En það réttlætir ekki að þeir ausi yfir hann fúkyrðum. Hættið þessu, strákar mínir!

Það er ekki ástæða til að efast um frásögn Kolbrúnar um sálarástandið hjá Samfylkingunni þegar prófessor þessi berst í tal. Alkunna er að þar á bæ er lagt stækt hatur á ýmsa menn og fær Hannes H. Gissurarson þar ríkulegan skammt. Meiri vafi er á því hvort helstu umræðumenn vinstrimanna munu fara að tilmælum Kolbrúnar um að hætta að ausa fúkyrðum yfir manninn.

Í fjörutíu ár hefur Hannes H. Gissurarson verið óþreytandi við að boða Íslendingum aukið frjálsræði, frjáls viðskipti og aukið andrými hins almenna manns. Og þau fjörutíu ár hafa vinstrimenn haft allt á hornum sér yfir þessu. Hannes hefur samið, þýtt og gefið út bækur, ritstýrt tímaritum, haldið fundi, fengið til Íslands fjölda erlenda fyrirlesara og þar á meðal að minnsta kosti þrjá Nóbelsverðlaunahafa, skrifað næstum endalausar blaða- og tímaritsgreinar og hlíft sér hvergi. Hann hefur tekið á sig ómælt hatur og fyrirlitningu vinstri manna í öllum flokkum og óflokksbundinna, til að vinna sínum frjálslyndu hugsjónum fylgi. Hannes H. Gissurarson er ekki gallalaus maður og ekki óskeikull, en því hafa hvorki hann né aðrir haldið fram. Verði honum eitthvað á, þá má treysta því að um það verður hrópað og kallað árum saman, af sömu fyrirhöfninni og iðulega er lögð í að þegja yfir kostum hans og því sem hann hefur áorkað til góðs.

Í Bóksölu Andríkis eru margar áhugaverðar bækur til sölu. Þrjár þeirra eru komnar úr smiðju Hannesar H. Gissurarsonar.

Þar má fyrst telja hið einstaklega læsilega stórvirki, Íslenska kommúnista 1918-1998, þar sem sagan er rakin frá því Brynjólfur Bjarnason tók þátt í götuóeirðum í Kaupmannahöfn þar til Svavar Gestsson og Margrét Frímannsdóttir fóru í boðsferð til Kommúnistaflokks Kúbu árið 1998. Er bókin með ólíkindum fróðleg um íslensk stjórnmál og ekki síður íslensk menningarmál nær alla tuttugustu öldina. Þessa bók ættu allir Íslendingar og ekki síst íslenskir hægrimenn að kynna sér vandlega.

Þá má geta lítillar bókar, Áhrifa skattahækkana á hagvöxt og lífskjör. Þar er fjallað um það í hvaða hagkerfi fólk getur brotist úr fátækt, og fjallað er um áhrif þeirra skattalækkana sem ráðist var í eftir árið 1991. Fróðleg og aðgengileg bók á sínu sviði.

Loks skal getið þýdds stórvirkis, Svartbókar kommúnismans, mjög vandaðrar frásagnar um ógnarstjórn kommúnista um allan heim, en talið er að um eitt hundrað milljónir manna hafi verið drepnar undir stjórn þeirra.

Í dag fagnar Hannes H. Gissurarson sextugsafmæli sínu. Í tilefni dagsins hefur Bóksala Andríkis lækkað verð allra þessara bóka um 60% á meðan birgðir endast. Íslenskir kommúnistar kosta því nú 1.995 krónur, Áhrif skattahækkana fást fyrir 760 krónur og Svartbók kommúnismans á 2.600 krónur. Heimsending innanlands er innifalin.

(Tilboðið rann út á miðnætti er birgðir voru uppurnar.)