Vefþjóðviljinn 32. tbl. 17. árg.
Það er af nógu að taka og erfitt að gera upp á milli þess sem sagt var um Icesave málið. Kenningar voru margar og það skiptir líka máli hvenær þeim var slengt fram.
Eftir fyrsta samkomulagið við Breta og Hollendinga, svokallaða Svavarssamninga, skrifaði Stefán Ólafsson prófessor í Fréttablaðið, nema hvar, þar sem hann færði rök fyrir því að samþykkja samningana. Greinin birtist 17. ágúst 2009. Þar sagði hann svo um þann kost að málið færi fyrir dómstóla:
Halda menn að nokkur dómstóll hefði dæmt Íslandi í vil í slíku máli? Varla. Líklegra er að slík framganga hefði opinberað okkur sem ræningjaþjóð.
Íslendingar greiða prófessorum við Háskóla Íslands mánaðarlega ágæt laun. Einn þeirra kallaði þá ræningjaþjóð fyrir það eitt að vilja fá botn í það fyrir dómi hvaða ábyrgð að lögum þeir bæru á skuldum einkafyrirtækis. Ræningjaþjóð.
Á hinn bóginn var samþykkt ályktun á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 26. júní 2010:
Við segjum NEI við löglausum kröfum Breta og Hollendinga í Icesave málinu.
Býður einhver betur um annars vegar sístu og hins vegar sönnustu orðin í Icesave málinu?