Fimmtudagur 31. janúar 2013

Vefþjóðviljinn 31. tbl. 17. árg.

Eftir opinn fund með íbúum Grafarvogs, þar sem einn maður var ókurteis og notaði orðið „hyski“ um yfirstjórn borgarinnar, sagði Jón Gnarr borgarstjóri að hann hefði orðið fyrir „einelti og ofbeldi“ á fundinum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jón bregður á það ráð að væna þá sem eru ósammála honum um stjórn borgarinnar um einelti. Það gerðu hann og Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi Besta flokksins einnig í viðtali við Fréttatímann 5. nóvember 2010 þar sem þeir sökuðu borgarfulltrúa um að vera með „svarta beltið í einelti.“  

Þar sagði Einar Örn um borgarfulltrúa minnihlutans:

Þau eru að gefa okkur skotleyfi á sig með því að vera dónaleg við okkur, en þau gleyma því að borgarstjóri er mesti grínisti Íslendinga. Hann fann upp uppistandið á Íslandi og þau ætla í grínkeppni við okkur með persónulegu níði. Við jörðum þau hvenær sem er – það er á hreinu.

Það er ekkert annað.

Er það ekki einelti að nota sterka stöðu á einhverju sviði til að níðast á fólki? Jarða það með persónulegu níði?

Auður Jónsdóttir rithöfundur útskýrði þetta raunar ágætlega með dæmi í viðtali við Fréttablaðið 3. nóvember 2010. 

Hátterni borgarstjóra og félaga hans minnir á þá sem leggja í einelti í grunnskóla segir rithöfundurinn Auður Jónsdóttir eftir að hafa horft á myndbrot út kvikmyndinni Gnarr.

Auður segist sjá eftir því að hafa stutt Besta flokkinn eftir að hafa horft á tvö myndskeið úr heimildarmyndinni Gnarr. Þar birtist meðlimir Besta flokksins eins og vinsælir krakkar í grunnskóla sem leggi aðra í einelti og þaggi niður umræðu.

Bæði myndbrotin hafi mikið til gengið út á að gera grín að Sóleyju Tómasdóttur, fulltrúa Vinstri grænna, og látið hafi verið í ljós að Besta flokknum þyki hún alveg svakalega leiðinleg. Jón Gnarr er meðal annars sýndur ganga hlæjandi út af fundi þegar Sóley heldur ræðu en í myndskeiðinu segist hann reyndar ekki muna hvað hún heitir. Skömmu seinna talar hann um fundarhöld sem honum þykir stjarnfræðilega leiðinleg.

Hvað myndi Jón Gnarr kalla það ef einhver gerði kvikmynd þar sem reynt væri að gera lítið úr honum? Hvaða orð myndi Jón nota yfir slíkt ef hann telur ókurteisi eins manns við yfirvaldið á opnum fundi bæði einelti og ofbeldi?