Vefþjóðviljinn 11. tbl. 17. árg.
Einu sinni var það helsta skrautfjöður vinstrigrænna að þeir voru álitnir trúir sér og stefnu sinni. Þó stefna þeirra ætti kannski ekki upp á pallborðið hjá fólki sem slík, þá yrði að virða það við þá að þeir væru heiðarlegir og ekki til sölu. Margir sögðust ekki vera sammála þeim, en bera samt virðingu fyrir þeim.
Hver segir þetta lengur?
Þeir eru alveg á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið en sitja í ríkisstjórn sem lætur Ísland sækja um aðild að Evrópusambandinu.
Þeir eru algerlega á móti hernaðarátökum og segja að Ísland megi ekki tengjast neinum átökum. Þeir sitja á sama tíma í ríkisstjórn sem þrívegis ákvað að Ísland notaði ekki neitunarvald sitt þegar lagt var til að NATO hæfi loftárásir á Líbýu. Ríkisstjórn Íslands hefði getað komið í veg fyrir loftárásirnar, en gerði það ekki.
Þeir eru miklir áhugamenn um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg málefni. Þingmenn þeirra greiða jafnan atkvæði gegn því að landsmenn fái að kjósa um hvort Ísland skuli sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu eða gangast undir Icesave-ánauðina. Forystumenn Vinstrigrænna urðu mállausir af reiði þegar efnt var til atkvæðagreiðslu um Icesave-samningana þeirra.
Þeir eru gríðarlegir umhverfissinnar. Náttúran verður alltaf að njóta vafans. Þeir hafa „grænt“ í nafninu sínu, merkinu sínu og þeim skyrtum formanns síns sem ekki eru gular. Sami formaður var að afhenda nokkrum fyrirtækjum leyfi til olíuleitar og tilraunaborana í íslenskri lögsögu.
Hver segir lengur að vinstrigrænir séu þó heiðarlegur flokkur sem menn geti að minnsta kosti borið vissa virðingu fyrir, vegna heilindanna?