Vefþjóðviljinn 7. tbl. 17. árg.
Eitt af því sem ríkisstjórnin hefur reynt að eyðileggja eru lífeyrissjóðir landsmanna en stofnanir eins og lífeyrissjóðir eru sérstaklega viðkvæmar fyrir alls kyns hringli með þær reglur sem um þær gilda. Þessi atlaga hefur ekki aðeins farið fram með því að galopna séreignarsjóði til útborgunar þar sem allt að 47% útborgunar rennur til ríkisins sem tekjuskattur. Ekki eingöngu með því að leggja eignarskatt á hreina eign sjóðanna. Stærsta skemmdarverkið felst líklega í því að halda sjóðunum árum saman frá fjárfestingu erlendis og smala þeim þannig í kaup á íslenskum ríkisskuldabréfum. Þannig þurfa skattgreiðendur framtíðar í raun að greiða út lífeyri sjóðsfélaganna sem er auðvitað fáránleg staða og algerlega gegn þeirri ágætu hugmynd að lífeyrir byggist á sjóðssöfnun en ekki kröfu á sjálfan sig og aðra skattgreiðendur.
Arnar Sigurðsson gerði ágæta grein fyrir hættunni af þessu í viðtali við sjónvarp Morgunblaðsins og benti meðal annars á þá stöðu að ríkissjóð skorti fé til að mæta skuldbindingum sínum við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR). Ríkissjóður gefur því út skuldabréf og leggur söluandvirðið inn í LSR sem er einmitt kaupandi bréfanna!
Þrátt fyrir að bókinni um Tinna í Kongó hafi verið úthýst úr bókabúðum og hún úthrópuð af rétttrúandi eru margar snjallar lausnir þaðan enn í fullri notkun.