Vefþjóðviljinn 8. tbl. 17. árg.
Muna menn eftir honum Kyoto? Það er samningnum sem gaf meiri útblástur frá samninganefndamönnum á ferð og flugi en flestir aðrir samningar fyrr og síðar?
Nú er víst komið að reikningsskilum því samningurinn snerist um að ríki myndu halda útblæstri gróðurhúsalofttegunda í skefjum þannig að hann yrði ekki meiri árið 2012 en hann var 1990.
Tvö ákafaríki um málið, Holland og Kanada, hafa aukið útblástur á þessum tíma um og yfir 20%. Japan lofaði 6% samdrætti en jók útblástur um 7% þrátt fyrir stöðnun í efnahagslífi landsins um árabil.
Bandaríkin tóku ekki þátt í þessu og hafa aukið útblástur um 10% þessu tímabili þrátt fyrir góðan hagvöxt mikinn hluta þess. The Wall Street Journal segir að aukningin hafi ekki verið meiri meðal annars vegna þess að með nýrri tækni tókst að vinna jarðgas í miklum mæli. Óvíst er að menn hefðu fengið að prófa sig áfram með þessar nýju aðferðir ef Al Gore hefði orðið að þeirri ósk sinni að Bandaríkin tækju þátt í Kyoto.
En hvað með góða Evrópusambandið? Jú það virðist í heild sinni ætla að mæta mörkunum í Kyoto. Það lánast með því að telja fyrrum kommúnistaríki Austur-Evrópu með í reikningnum en þar lagðist mengandi iðnaður af eftir hrunið. Jafnframt hefur efnahagsleg stöðnun hjálpað til og lög og reglur sambandsins hafa hrakið iðnað á brott.