Vefþjóðviljinn 362. tbl. 16. árg.
Mörg fyrirtæki bæta við sig mannskap, lengja afgreiðslutíma sinn og auka við þjónustu sína fyrir jólin til að mæta auknum viðskiptum. Bókaverslun sem byði upp á sama úrval og afgreiðslutíma í desember og október myndi vart þrífast.
En þetta á auðvitað ekki við opinber fyrirtæki sem njóta einokunar. ÁTVR er kannski „besta“ dæmið þar um.
Eitt verkefnið sem hið opinbera sinnir í höfuðborginni er sorphirða. Undanfarin ár hefur bæði tunnum og sorpbílum fjölgað og gjaldskrár hækkað en þjónustan versnað. Þess eru jafnvel dæmi að þrír sorpbílar fari um sömu götuna einn daginn en svo enginn næstu 10 dagana. Þessi sorpbílasægur er að hirða sorp úr mislitum tunnum, en allir hljóta að sjá að þrír bílar og margar tunnur eru betri fyrir umhverfið en einn bíll og ein tunna. Nema auðvitað ef um er að ræða einkabíla, þeir eru sérstakt vandamál sem pólitíkusar vilja „þrengja að“.
Eins og sjá má á sorphirðudagatali borgarinnar fyrir Vesturberg („hirðuhverfi 51“) var sorp síðast hirt í hverfinu 20. desember og verður ekki gert aftur fyrr á næsta ári. Samkvæmt þessu dagatali fyrir Breiðholtið er desember með fæsta sorphirðudaga fyrir hinar hefðbundnu svörtu tunnur. Borgarstjórnin virðist ætla að íbúar í Breiðholti beri jólasteikina og mandarínurnar heim í húfunni og fái engar innpakkaðar jólagjafir sem rusl fellur af.
Hvers vegna eru borgarbúar skikkaðir til að kaupa þjónustu af borginni sem hún ræður ekki við að veita?