Miðvikudagur 26. desember 2012

Vefþjóðviljinn 361. tbl. 16. árg.

Ríkisútvarpið sagði frá því á jóladag að á alþingi hefði skapast samstaða um að breyta stjórnarskrá Íslands, þannig að framselja megi fullveldi landsins til erlendra aðila „í ákveðnum tilvikum“. Þetta er víst „nauðsynlegt“ svo fylgja megi hraðlest einhverra nýrra alþjóðlegra samninga.

Hverjir hafa náð samstöðu um þetta? 

Nú þarf auðvitað ekki að koma á óvart að Samfylkingin vilji þetta, enda hafa kratar lengi talið að Íslendingar hafi ekkert með fullveldi að gera og að best sé að faglegir ókjörnir embættismenn á meginlandinu stýri íslenskum málum. Ekki þarf heldur að koma á óvart að Vinstri grænir samþykki fullveldisafsal enda væri slíkt afsal í andstöðu við yfirlýsta stefnu þeirra, og forysta þeirra þar með líkleg til að styðja það.

En hvað með aðra? Er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að ná slíkri „samstöðu“? Hvernig var það gert? Hringdu þeir úr Samtökum atvinnulífsins og frá Samtökum iðnaðarins í forystuna og sögðu að það væri mjög mikilvægt fyrir Atvinnulífið að allar innleiðingar á nýjustu frösunum frá Brussel gengju hikstalaust fyrir sig, og því gætu menn ekki verið að hanga á einhverju fullveldi eins og hundar á roði?

Hvaðan kemur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sú hugmynd að ganga til samkomulags við vinstristjórnina um stjórnarskrárbreytingar til að afsala hluta af fullveldi landsins? Hefur landsfundur Sjálfstæðisflokksins kannski samþykkt það? Þegar nýjustu tískusamningar erlendra embættismanna rekast á við íslensku stjórnarskrána, hvers konar Sjálfstæðisflokkur er það sem tekur þá afstöðu með útlendu samningunum en ekki stjórnarskránni, fullveldinu og Íslandi?