Helgarsprokið 16. desember 2012

Vefþjóðviljinn 351. tbl. 16. árg.

Íslendingar fengu lán hjá Pólverjum eftir hrun fjármálakerfisins. Enda telja Íslendingar sig hafa pening til að taka þátt í Eurovision en Pólverjar ekki.
Íslendingar fengu lán hjá Pólverjum eftir hrun fjármálakerfisins. Enda telja Íslendingar sig hafa pening til að taka þátt í Eurovision en Pólverjar ekki.

Við fjármálahrunið haustið 2008 leituðu íslensk stjórnvöld víða lánafyrirgreiðslu. Meðal þeirra sem brugðust vel við voru Færeyingar og Pólverjar. Pólverjar buðust að fyrra bragði til að lána um 25 milljarða íslenskra króna (200 milljónir dala) og Færeyingar 6 milljarða (50 milljónir dala).

Nokkrum mánuðum síðar ákváðu ríkisstjórn Íslands og borgaryfirvöld í Reykjavík að halda áfram með byggingu Hörpunnar en móðurfélag hennar ásamt fjölda undirfélaga voru komin í þrot. Tugmilljarða þroti var þannig ýtt yfir á skattgreiðendur í stað þess að láta kröfuhafa fá húsið í fangið. Þar með hefði 35 ára samningur um fjármögnun ríkis og borgar fallið niður vegna vanefnda. Það var alveg ljóst að skattgreiðendur hefðu losnað undan þessu ef ekki hefði verið staðið við afhendingu hússins. Greiðslur frá skattgreiðendum áttu ekki að hefjast fyrr að afhendingu lokinni.

Jafnvirði lánanna frá Pólverjum og Færeyingum var þannig nær samstundis eytt út af bókum ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar til að halda áfram með byggingu útrásarhallarinnar. 

Er hægt að haga sér svona eftir að hafa farið víða um lönd með betlistafi?

Nú berast svo fréttir af því að Pólverjar taki ekki þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva vegna þess kostnaðar sem því fylgir. Og ekki eru Færeyingar heldur með.

En Íslendingar sem þáðu neyðarlán af Pólverjum og Færeyingum fyrir nokkrum árum hafa aldrei misst úr mót.

Var eitthvað hrun hérna? Hvað hrundi eiginlega ef hið opinbera gefur bara í við byggingu glæsihýsa og þátttöku í skrautsýningum? Almenn skynsemi?