Vefþjóðviljinn 350. tbl. 16. árg.
Ef starfsmenn Alþingis væru ekki svo alvörugefnir hefði nýtt frumvarp Ögmundar Jónassonar um „Happdrættisstofu og bann við greiðsluþjónustu“ sjálfsagt fengið númerið 1984 í þingskjölum.
En þá skortir ekki spé sem sömdu frumvarpið og greinargerðina sem fylgir því. Í greinarferðinni segir meðal annars:
Ekki er gert ráð fyrir því að stofan verði stór í sniðum. Hins vegar þarf hún að hafa bolmagn til að…
Með banni við greiðsluþjónustu ætlar innanríkisráðherrann sér svo að banna greiðslukortafyrirtækjum og öðrum að miðla greiðslum til happdrættisfyrirtækja erlendis sem ekki hafa fengið leyfi hinnar nýju happdrættisstofu til slíkrar starfsemi á Íslandi.
Arnar Sigurðsson gerði þessu máli skil í Morgunblaðinu á fimmtudaginn var. Þar sagði hann:
Ögmundur ætlar að „koma í veg“ fyrir eitthvað sem hann flokkar sem „ólöglega netspilun á erlendum sem innlendum vefsíðum“. Til að leysa slíkt er Ögmundur trúr rótum sínum og horfir til þess hvernig sósíalísk ríki á borð við Kúbu, Kína og Norður-Kóreu leysa slík mál með ritskoðun á netinu og skorðum við notkun greiðslukorta. Ekki fylgir þó með frumvarpinu ítarleg útflærsla, t.d. um hvernig loka eigi fyrir notkun erlendra greiðslukorta á erlendum síðum, hvernig hægt verði að stöðva notkun íslenskra greiðslukorta ef korthafi ferðast erlendis, hvort tengingar við greiðslumiðlunarkerfi á borð við PayPal, sem aldrei mun beygja sig fyrir meinlokuhugmyndum Ögmundar, verði bannaðar, nú eða hvort útlendingum á Íslandi verði meinaður aðgangur að erlendum síðum sem Ögmundi eru ekki þóknanlegar.
Veruleikafirring Ögmundar er reyndar slík að í greinargerð með frumvarpinu er beinlínis viðurkennt að: „Enginn vafi er á því að greiðslumiðlunarbann telst hindrun á þjónustufrelsi í skilningi Evrópuréttar.“ Að viðurkenna lögbrot í greinargerð með lagafrumvarpi hlýtur að vera nýlunda hér á landi og verðugt rannsóknarverkefni fyrir svokallaða stjórnsýslufræðinga.
Fyrir flest hófsemdarfólk eru veðmál eitthvað sem við viljum sem minnst vita af og allir hafa heyrt reynslusögur af fíklum sem ánetjast slíkri iðju. Því er viðbúið að flestum þyki einfaldlega bara þægilegt að losna við vandamálið með lagaboði. Því er til að svara að sögulega hverfa þjóðir sjaldnast í einni svipan frá frelsi til alræðis heldur er einstaklingsfrelsið étið einn bita í einu, ávallt með göfugum tilgangi hverju sinni. Fjárhættuspil er hinsvegar löstur en ekki glæpur.