Vefþjóðviljinn 349. tbl. 16. árg.
Það er víst margt þessa dagana sem þykir algert einsdæmi.
Forystumenn Alþýðusambands Íslands segjast vera búnir að fá alveg nóg af samfelldum svikum núverandi ríkisstjórnar. Séu svikin orðin slík að Alþýðusambandið muni ekki ræða frekar við ríkisstjórnina en bíði einfaldlega viðræðuhæfrar ríkisstjórnar.
Jóhanna Sigurðardóttir þrumar yfir alþingi að þetta sé algert einsdæmi.
Já kannski er þetta einsdæmi. En hvaða sögu segir það einsdæmi? Forystumenn verkalýðsfélaganna eru fæstir miklir hægrimenn. Þeir myndu varla setja fram svo einstaklega harða gagnrýni á ríkisstjórnina nema þeir teldu fulla ástæðu til. Engum dettur í hug að þeir tali sér um hug, til þess að koma höggi á stjórnarflokkana. Þeir telja greinilega í einlægni að núverandi ríkisstjórn sé hreinlega óviðræðuhæf vegna samfelldra svika forystumanna hennar. Þetta er vissulega einstakt, en núverandi ríkisstjórn verður vonandi einstök líka í stjórnmálasögu landsins.
Sama dag talaði Valgerður Bjarnadóttir, sá þingmaður Samfylkingarinnar sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur falið að þjösna nýrri stjórnarskrá landsins í gegnum Alþingi, frá Feneyjum. Valgerður sagði að innan svokallaðrar „Feneyjanefndar“ væri mikill áhugi á að skoða framkomnar stjórnarskrártillögur, enda væri það „ekki á hverjum degi sem vestrænt lýðræðisríki“ tæki upp á því að gerbreyta hjá sér stjórnarskránni.
Nei, það er vissulega „ekki á hverjum degi“. Enda er engin ástæða til slíks. Hér á landi er engin frambærileg ástæða fyrir stjórnarskráratlögunni og í siðuðum löndum hefur engum dottið í hug að ganga fram eins og Jóhanna Sigurðardóttir og félagar gera nú gagnvart stjórnskipun ríkisins.
Stjórnarhættir Jóhönnu eru hvert einsdæmið á fætur öðru. Framganga hennar gagnvart verkalýðshreyfingunni mun halda áfram á meðan Jóhanna er við völd. Þar verða menn einfaldlega að þrauka og bíða. En mönnum er ekki skylt að horfa aðgerðalausir á atlögu hennar og ofstækisfyllstu þingmanna landsins gegn stjórnarskránni. Þeirri atlögu verður að hrinda og þar hlýtur stjórnarandstaðan að beita öllum löglegum leiðum, enda er hún í fullum rétti til að gera slíkt.